Slæm ákvörðun að frysta launin

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Spurningin sem menn ættu ávallt að spyrja er sú hvort þeir sem heyra undir ráðið og ekki fara með samningsrétt, hvort þeim séu ákvörðuð laun í samræmi við markmið og tilgang laga um kjararáð. Það er spurningin sem í mínum huga hefur alltaf trompað allar aðrar.“

Frétt mbl.is: Laun biskups hækka

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun kjararáðs um að hækka meðal annars laun biskupa og presta. Bjarni bendir á að þeir sem sæta þurfi því samkvæmt lögum að geta ekki samið um kjör sín og almennir launþegar þurfi að hafa einhverja tryggingu fyrir því að þeim séu ákvörðuð laun sem fást staðist skoðun. Það sé gert í kjararáðslögunum með því að kjararáði sé skylt að ákveða laun fyrir þá hópa sem undir það heyra sem séu sambærileg við það sem aðrir njóti í samfélaginu sem falin hefur verið hliðstæð ábyrgð.

„Ég hef ekki gert neinn slíkan samanburð. Menn verða einfaldlega að skoða ákvarðanir kjararáðs í sögulegu ljósi og með hliðsjón af þessum tilgangi laganna. Ég geri mér hins vegar vel grein fyrir því að ákvarðanir kjararáðs geta valdið óróa. Það gera fáir sér betur grein fyrir því en ég myndi ég vænta,“ segir hann og bætir við með vísan til ákvörðunar sem tekin var í kjölfar falls stóru viðskiptabankanna þriggja haustið 2008:

„Ég hef einfaldlega bent á það í þessu samhengi að það virðist hafa verið slæm ákvörðun eftir á að hyggja að hafa látið kjararáðshópana sitja í frosti á meðan opinberir starfsmenn og almenni markaðurinn nutu hækkana í einhver ár. Það hefur leitt til þess að kjararáð var í mjög erfiðri stöðu. Launin voru fryst í mjög langan tíma en síðan er sú staða að kallast á við önnur ákvæði laganna sem segja að allir sem heyra undir ráðið eigi að njóta sambærilegra kjara og aðrir í viðlíka ábyrgð. Þetta er bara flókin staða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert