„Fyrir mitt leyti sé ég enga ástæðu til þess að rannsaka málið frekar og að málið sé fullskoðað. Dómurinn talar sínu máli og ráðherrann hefur brugðist við. Ef það er hins vegar vilji þingsins að kanna einhver atriði þá finnst mér nú erfitt að setja út á það í sjálfu sér.“
Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is vegna dóms Hæstaréttar um að málsmeðferð við skipun dómara við Landsrétt fyrr á þessu ári hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Hæfisnefnd lagði til að 15 einstaklingar yrðu skipaðir í jafnmörg embætti dómara en Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lagði hins vegar til við Alþingi að fjórir aðrir yrðu skipaðir í stað jafnmargra í tillögu nefndarinnar.
Frétt mbl.is: Dæmdar miskabætur í Landsréttarmálinu
Tveir þeirra sem hæfisnefndin lagði til að yrðu skipaðir en voru ekki í tillögu ráðherra, Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, höfðuðu slaðabótamál vegna ákvörðunarinnar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þeim hefði ekki tekist að sýna fram á að þeir hefðu orðið fyrir tjóni vegna málsins en dæmdi ríkið til þess að greiða þeim 700 þúsund krónur hvorum vegna þess að málsmeðferðin hafi ekki samrýmst lögum.
Hæstiréttur telur að dómsmálaráðherra hefði átt að byggja athugun sína á frekari rannsókn en gert hafi verið. Í það minnsta á hæfi þeirra fjögurra sem skipaðir hafi verið af Alþingi á grundvelli tillögu ráðherra samanborðið við þá fjóra sem ekki hlutu dómaraembætti. Lögmaður ríkisins benti á að ráðherra hefði aðeins haft ellefu daga til að undirbúa málsmeðferð sínaog að ákvörðunarvaldið væri í raun og veru hjá Alþingi.
Frétt mbl.is: Sigríður bregst við dómi Hæstaréttar
Sigríður Andersen hyggst bregðast við dómi Hæstaréttar með því að setja reglur innan dómsmálaráðuneytisins sem taki á því þegar ráðherra ákveður að leggja fyrir Alþingi aðrar tillögur um skipun dómara en þær sem hæfisnefnd leggur til. Fram kom í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu að þetta væri gert til þess að koma til móts við kröfu Hæstaréttar um ríkari skyldur á ráðherra að rannsaka slík mál með sjálfstæðum hætti.
Fundað verður síðar í dag í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um dóm Hæstaréttar en Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur kallað eftir því að nefndin rannsaki málið. Spurður hvort hann beri fullt traust til dómsmálaráðherra segir Bjarni í samtali við mbl.is: „Já, hann gerir það.“