„Við ræddum viðkvæma stöðu ráðherra eftir dóm Hæstaréttar,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir fund nefndarinnar, í samtali við mbl.is. Landsréttarmálið var til umræðu á fundinum.
Dómararnir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson fengu samtals 1,4 milljónir króna í miskabætur vegna skipunar dómara við landsrétt. Hæfisnefnd lagði til að 15 einstaklingar yrðu skipaðir í jafnmörg embætti dómara en Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lagði hins vegar til við Alþingi að fjórir aðrir yrðu skipaðir í stað jafnmargra í tillögu nefndarinnar.
Nefndin lagði til þá Ástráð og Jóhannes en þeir voru ekki í tillögu ráðherra og höfðuðu skaðabótamál. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þeim hefði ekki tekist að sýna fram á að þeir hefðu orðið fyrir tjóni vegna málsins en dæmdi ríkið til þess að greiða þeim 700 þúsund krónur hvorum vegna þess að málsmeðferðin hafi ekki samrýmst lögum.
„Það var ákveðið að kalla fyrir nefndina okkar helstu sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að ræða stjórnskipulega stöðu ráðherra sem og stöðu þingsins,“ sagði Helga Vala en sá fundur fer fram á nýju ári.
Einnig ákvað nefndin að kalla eftir öllum gögnum málsins frá ráðuneytinu til að átta sig á þeirri vinnu sem hefði átt sér stað. Helga Vala sagði býsna góða samstöðu um þetta í nefndinni og í raun hefði enginn verið ósáttur.
„Við ræddum þetta fram og til baka en þegar við ræddum næstu skref voru allir sammála um mikilvægi þess að fara í þetta. Það þarf auðvitað að byggja svolítið upp traust á framkvæmdavaldi og Alþingi eftir svona skell eins og var í Hæstarétti í gær.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í morgun að hann teldi enga ástæðu til að rannsaka málið frekar og að það væri fullskoðað. Helga Vala er ósammála Bjarna. „Við erum ósammála því. Málið er ekki fullskoðað. Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks í nefndinni voru sammála því að það þyrfti að fara yfir þetta í kjölfar dómsins.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist taka dómnum alvarlega og það ætti að læra af honum. Fara yrði yfir regluverkið í kringum málsmeðferðarreglurnar svo að svona mál myndu ekki endurtaka sig. „Ég gerði ekki kröfu um afsögn ráðherrans síðasta vor vegna málsins og geri það heldur ekki nú,“ sagði Katrín.