Stjórn Tónskáldafélags Íslands hefur lýst yfir verulegum vonbrigðum með viðbrögð Jakobs Frímanns Magnússonar, stjórnarformanns STEFs, við kæru Hjálmars H. Ragnarssonar vegna ráðningar í stöðu forstöðumanns rekstrarsviðs samtakanna.
Í færslu á facebooksíðu félagsins er vísað í ummæli Jakobs Frímanns í viðtali á mbl.is 19. desember. Eru þau sögð ómálefnaleg, lítilsvirðandi og á engan hátt samtökunum sæmandi.
Frétt mbl.is: Ráðning Stebba Hilmars kærð
Málið snýst um ráðningu Stefáns Hilmarssonar í starf forstöðumanns rekstrarsviðs STEFS. Tilkynnt var um ráðninguna í september en Hjálmar H. Ragnarsson, fyrsti rektor Listaháskóla Íslands og fyrrverandi formaður Tónskáldafélags Íslands, kærði hana til fulltrúaráðs STEFs í október, m.a. á þeim grundvelli að Stefán væri vanhæfur til starfsins sökum persónulegra hagsmuna þegar kæmi að innheimtu og úthlutun höfundarréttartekna.
Fulltrúaráð STEFs hafnaði kærunni á fundi sínum síðastliðinn mánudag.
Jakob Frímann tjáði sig um kæruna í viðtali við mbl.is í vikunni þar sem hann sagði meðal annars:
„Það að einhverjum einum litlum höfundi detti í hug að gera athugasemd við hver er ráðinn sem skrifstofumaður, eða sem bókhaldari, eða sem sendill, það varðar mig bara ekkert um. Og bið þá hina sömu að finna sér eitthvað betra til, kannski reyna að semja einhver almennileg lög.“
Tónskáldafélagið telur ummælin á engan hátt samtökunum sæmandi.
Færsla Tónskáldafélagsins á Facebook: