Krefur ríkið um bætur vegna dómaraskipunar

Hæstiréttir komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Sigríður …
Hæstiréttir komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar hún skipaði í embætti 15 dómara við Landsrétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Höskuldsson héraðsdómari hefur krafið íslenska ríkið um tugi milljóna vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að líta fram hjá honum þegar skipað var í embætti dómara við Landsrétt. Hann var í hópi 15 hæfustu umsækjendanna samkvæmt matsnefnd.

Frá þessu er greint í tíufréttum á Rúv. Jón sendi í dag dómsmálaráðherra bréf þar sem hann krefur íslenska ríkið um skaða- og miskabætur í ljós niðurstöðu Hæstaréttar í máli tveggja dómara sem einnig var litið fram hjá við skipan í embætti dómara við Landsrétt.

Frétt mbl.is: Dæmdar miskabætur í Landsréttarmálinu

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli tvímenninganna að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar hún skipaði í embætti 15 dómara við Landsrétt. Hún hefði vikið frá niðurstöðu matsnefndar um hæfi dómara þegar hún gekk fram hjá fjórum af þeim 15 sem nefndin mat hæfasta án þess að gera sjálfstætt mat á hæfi þeirra.

Í bréfinu segir meðal annars að tjónið sem Jón hafi orðið fyrir nemi mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt og héraðsdómara hins vegar. Hann krefst þess að fá muninn greiddan í 9 ár, eða þar sem eftir er starfsævi sinnar.

Auk skaðabótanna krefst hann miskabóta og lögmannskostnaðar. Nákvæm upphæð kröfunnar liggur ekki fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert