Landspítalinn hefur sent vísindasiðanefnd bréf þar sem óskað er eftir að útbúnar verði leiðbeinandi reglur um mörkin milli gagnarannsókna annars vegar og vísindarannsókna á mönnum hins vegar.
Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Ólafs Baldurssonar, framkvæmdastjóra lækninga við Landspítalann, og Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítalans, sem hafa haldið utan um plastbarkamálið fyrir hönd spítalans. Þau hafa skilað skýrslunni til Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.
Ef orðið verður við beiðninni til vísindasiðanefndar mun spítalinn kappkosta að innleiða þær reglur á spítalanum til að koma í veg fyrir sambærileg atvik og þau sem urðu í tilfelli Andemariams T. Beyene, sem lést eftir plastbarkaígræðslu, og varða mistök í vísindastarfi, geti gerst aftur.
Í stöðuskýrslunni er greint frá viðbrögðum Landspítalans við þeim tilmælum og athugasemdum sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar sem forstjóri spítalans og rektor Háskóla Íslands skipuðu til að rannsaka plastbarkamálið. Skýrslu rannsóknarnefndar var skilað sjötta nóvember síðastliðinn.
Landspítali hefur einnig með formlegum hætti sent mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra erindi þar sem óskað er eftir endurskoðun á lögum nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Vonast er til að sú endurskoðun tryggi að vísindasiðanefnd, eða sambærileg opinber nefnd fái nægilegar valdaheimildir til afskipta af vísindarannsóknum.
„Vísindasiðanefnd þarf nauðsynlega að fá valdheimild til þess að skipta sér af framkvæmd vísindarannsókna þegar um er að ræða íhlutandi vísindarannsókn á mönnum og þegar um er að ræða vísindarannsóknir þar sem vanrækt hefur verið að sækja um tilskilin leyfi siðanefnda,“ segir í stöðuskýrslunni.
Fram kemur að tillaga sé til athugunar hjá Landspítalanum um að ekkju Andemariams verði veitt fjárhagsaðstoð svo að hún geti ráðið sér lögmann til að fara yfir það hvort um bótaskyld atvik sé að ræða.
„Það er mat Landspítala að bregðast verði við fjölmörgum athugasemdum skýrslunnar þó að þær séu ekki tíundaðar í tillögukafla hennar. Búast má við frekari viðbrögðum Landspítala eftir því sem málinu vindur fram og frekari rýni er lokið,“ segir í stöðuskýrslunni.
Landspítali hefur einnig aukið áherslu á kennslu á sjúkraskrárkerfi spítalans bæði innan læknadeildar, í samstarfi við læknadeild, á kandídatsári lækna innan spítalans, og almennt meðal starfsmannaspítalans með sérstöku kennsluátaki.
Viðræður hafa einnig átt sér stað milli forsvarsmanna Landspítala og Háskóla Íslands varðandi eflingu siðanefnda stofnananna og varðandi mögulegar leiðir til þess að efla samstarf þeirra.
Í kafla um samskipti Landspítalans við helstu stjórnendur Karólínska sjúkrahússins segir að forstjóri, aðstoðarmaður forstjóra og framkvæmdastjóri lækninga hafi átt fund með samsvarandi stjórnenum Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð 20. nóvember.
„Sameiginleg stefna beggja aðila er að leggja þunga áherslu á að allir aðilar málsins dragi sem mestan lærdóm af því til þess að hindra að slíkt geti endurtekið sig. Sérstaklega var rætt um sendingar klínískra upplýsinga á milli spítalanna, skort á eftirfylgni með sjúklingnum af hálfu KS og þá ákvörðun KS/KI að stofna tilraunadeild í barkaskurðlækningum, án tilskilinna leyfa siðanefnda. Það var sameiginleg niðurstaða af fundinum að viðhalda og efla það góða samstarf sem almennt hefur ríkt milli spítalanna og horfa til framtíðar, með lærdóm og umbætur í þjónustu við sjúklinga að leiðarljósi.“
Um starfsmannamál segir að fjallað hafi verið sérstaklega um mál þeirra þriggja starfsmanna Landspítala sem tengdust mest atburðarás málsins. Þeirri umfjöllun sé lokið af hálfu spítalans. „Um er að ræða einkamál viðkomandi starfsmanna og því ekki frekar um þau fjallað hér.“