Fullkomin eftirgjöf Vinstri grænna

Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður, Logi Már Einarsson formaður og Oddný …
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður, Logi Már Einarsson formaður og Oddný Harðardóttir þingflokksformaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftirgjöf Vinstri grænna í jafnaðarmálum er fullkomin og munu aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur koma til með að ýta undir ójöfnuð í samfélaginu. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Samfylkingin boðaði til vegna fjárlagafrumvarpsins. Samfylkingin gagnrýnir fjárlagafrumvarpið harðlega og segja forystumenn flokksins að það beri vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi í velferðarmálum.

„Einhvern veginn þurfum við að bregðast við þessari auknu misskiptinu. Þýðir ekki alltaf að fresta hlutum ár eftir ár,“ sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á fundinum. „Það eru vonbrigði að sjá þessa fullkomnu eftirgjöf Vinstri grænna í jafnaðarmálum.“

Vakin var athygli á því að þegar frumvarpið væri borið saman við fjárlagafrumvarp fyrri ríkisstjórnar sem Vinstri græn kölluðu „hægri sveltistefnu“ kæmi í ljós að einungis væri gerð 2% breyting á milli frumvarpa. Í meðförum fjárlaganefndar tók frumvarpið aðeins 0,2% breytingum og því er fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur eingöngu 2,2% frábrugðið fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar.

Hafði Logi Már Einarsson orð á því að í þokkabót væri aðeins 2% munur á kápum fjárlagaritanna. 

Milljarður gegn kynbundnu ofbeldi

Samfylkingin hefur lagt fram sínar eigin tillögur. Þær kveða á um að 5 milljarðar verði settir í barna- og vaxtabótakerfið, 2 milljarðar verði settir í stofnframlög til almennra íbúða, 3 milljarðar renni til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, 500 milljónir til heilbrigðisstofnana og 400 milljónir til heilsugæslunnar.

Auk þess er lagt til að ríkisstjórnin leggi 400 milljónir til framhaldsskóla, milljarð til samgöngumála og milljarð til sóknar gegn kynbundnu ofbeldi. 

Útgjaldaaukningin yrði fjármögnuð með auknum tekjum af erlendum ferðamönnum, hækkun auðlindagjalda og kolefnisgjalds, tekjutengdum auðlegðarskatti og hærri fjármagnstekjuskatti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert