Heimilisuppbót öryrkja verður hækkuð sérstaklega, umfram almenna hækkun bóta um áramótin og þeim sem búa einir tryggðar 300 þúsund króna heildartekjur á mánuði. Tekjumark vegna uppbótar á lífeyri hækkar einnig. Aukningin nemur 166 milljónum króna og hefur tillaga þessa efnis verið lögð fram af hálfu meirihluta fjárlaganefndar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Ríkisstjórn og meirihluti fjárlaganefndar hefur samþykkt breytingarnar í samræmi við tillögur Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.
„Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra var að funda með forsvarsmönnum Öryrkjabandalags Íslands. Í framhaldi af þeim fundum hef ég lagt áherslu á þessar breytingar enda er um að ræða sjálfsagt réttlætismál og fyrsta skref í átt að því að bæta kjör þeirra tekjulægstu í hópi öryrkja“ segir Ásmundur Einar í tilkynningunni.
Bætur almannatrygginga til tekjulausra örorkulífeyrisþega sem búa einir eru nú 280 þúsund krónur á mánuði. Gert er ráð fyrir að almennar hækkanir bóta 1. janúar næstkomandi verði 4,7% sem myndi hækka bætur þessa hóps í rúmar 293 þúsund krónur á mánuði.
Með þeirri breytingu sem nú hefur verið ákveðin verður heimilisuppbótin hækkuð um 6.840 kr. á mánuði til viðbótar 4,7% hækkuninni og framfærsluviðmiðið hækkar einnig í 300 þúsund krónur á mánuði. Þessi leið er til þess fallin að draga úr svokallaðri „krónu á móti krónu skerðingu.“
Enn fremur leiðir hún til þess að þeir lífeyrisþegar sem búa einir og uppfylla skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar munu fá hærri greiðslur frá almannatryggingum en ella.
Samkvæmt lögum um félagslega aðstoð er heimilt að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því skal taka tillit til eigna og tekna.
Tekjumarkið er núna rúmar 2.700.000 kr. á ári og hefur verið óbreytt frá árinu 2015 þegar það var hækkað umtalsvert. Nú er á ný gert ráð fyrir því að tekjumarkið verði hækkað í samræmi við hækkun á fjárhæðum bóta og verði 2.827.779 kr. frá 1. janúar 2018, að því er kemur fram í tilkynningunni.