„Komin með landakort að framtíðinni“

Yfirlitsmynd samkvæmt nýju rammaskipulagi Skeifunnar. Horft til suðvesturs.
Yfirlitsmynd samkvæmt nýju rammaskipulagi Skeifunnar. Horft til suðvesturs. Teikning/Kanon arkitektar

Á næstu vikum munu borgaryfirvöld byrja að funda með eigendum lóða á Skeifusvæðinu um næstu skref í þróun og uppbyggingu svæðisins. mbl.is greindi frá því í gær að borgarráð hefði á fimmtudaginn samþykkt nýtt rammaskipulag fyrir svæðið í heild sinni, en samkvæmt því verður byggingarmagn meira en tvöfaldað og gert ráð fyrir 750 íbúðum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is að með þessu rammaskipulagi sé borgin bæði að bregðast við þeim áhuga sem hafi komið frá eigendum að endurskipuleggja svæðið og þeirri staðreynd að samgöngumál hafi þar lengi verið vandamál. Þá séu einnig talsverð tækifæri á svæðinu samhliða uppbyggingu borgarlínu á komandi árum.

Skapar ekki sjálfkrafa byggingarheimildir

Rammaskipulag eitt og sér skapar ekki byggingarheimildir, en að sögn Dags sé með þessu reynt að fara nýja leið þar sem ekki er hlaupið af stað með deiliskipulag á litlum svæðum áður en komið er rammaskipulag fyrir allt svæðið. Hver eigandi þarf svo að leggja fram tillögur um breytingar að deiliskipulagi áður en hægt er að hefjast handa við breytingar.

Frétt mbl.is: 750 íbúðir og tvöfalt byggingarmagn

„Við erum komin með landakort að framtíðinni,“ segir hann um rammaskipulagið og segist vona að hagsmunaaðilar og lóðaeigendur muni sameinast um hugmyndirnar. „Ég er ánægður hvað vel hefur tekist til.“

Ekki byggt upp í einum rykk

„Þetta verður ekki byggt upp í einum rykk, heldur mun taka mislangan tíma, jafnvel töluvert langan tíma,“ segir Dagur og bætir við að það sé vilji borgaryfirvalda að halda í það góða sem Skeifan hafi upp á að bjóða í tengslum við að vera öflugt þjónustu- og verslunarsvæði. „En það hefur sína augljósu galla, sérstaklega gatnaskipulagið,“ segir hann.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Stóra breytingin sem borgin mun koma að í þessum efnum verður í tengslum við samgöngumálin, en Skeifan er á svokölluðum þróunarás borgarinnar. Þar mun meðal annars borgarlínan fara framhjá og segir Dagur að yfirvöld búist við miklum áhuga á uppbyggingu á svæðinu. Segir hann að þegar hafi nokkrir stóri eigendur látið vita af áhuga sínum á að hefja uppbyggingu og breytingar. „Við munum funda með þeim á næstunni,“ segir hann og bætir við að það verði á næstu vikum.

Brunareiturinn meðal fyrstu reitanna

Meðal fyrstu reitanna sem líklega verður hafist handa við að breyta er brunareiturinn í miðju svæðisins. Þannig lýstu Hagar því nýlega yfir að þeir hygðust reisa Bónus verslun á reitnum. Segir Dagur að fleiri reitir hafi verið nefndir þar sem menn vilji hefjast handa við fljótlega, en að borgin muni ræða við eigendur áður en hann vilji nokkuð tjá sig nánar um það.

Í byrjun ársins greindi mbl.is frá því að hugmyndir væru uppi um byggingu stórs hótels í norðvestur horni Skeifureitsins, á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar.

Fram kom í frétt mbl.is í gær að talsverðar kröfur væru af hálfu borgarinnar varðandi bílastæði, gróður, almannarými og heildarútlit. Segir Dagur að með þessu sé borgin að horfa til þess sem best hefur tekist erlendis á svæðum sem þessum. „Það er ekki ætlað sér um of,“ segir hann og vísar til þess að í rammaskipulaginu séu fjölmargar myndir og fordæmi þar sem svipuð uppbygging hafi tekist vel erlendis.

Rauði liturinn táknar ný hús, fjólublái liturinn táknar viðbyggingar við …
Rauði liturinn táknar ný hús, fjólublái liturinn táknar viðbyggingar við núverandi hús og blái liturinn hús sem munu áfram standa samkvæmt nýju rammaskipulagi. Eins og sjá má er horft til þess að endurbyggja Skeifusvæðið að stórum hluta. Teikning/Kanon arkitektar

„Það er ekki verið að ýta bílnum út af svæðinu“

Gert er ráð fyrir að bílastæðum fækki eitthvað á svæðinu, þrátt fyrir mikinn fjölda íbúða sem verða byggðar og aukið þjónustu- og verslunarrými. Þá verður ekki krafa um bílastæði við mörg íbúðahúsanna, sérstaklega þau sem verða nærri almenningssamgögnum. Segir Dagur að nýja skipulagið sé þrátt fyrir þetta bílamiðaðra en margt annað sem unnið sé með í nýja aðalskipulaginu.

„Þetta er þjónustusvæði sem fólk mun sækja á bíl, en það þarf einnig að vinna með öðu þannig að það sé ekki hættulegt að vera þarna gangandi eða á hjóli.“ Segir hann að með betra skipulagi svæðisins og bættum umferðatengingum inn og út af svæðinu eigi bílaumferð einnig að verða skilvirkari og þá geti öflugar almenningssamgöngur gagnast svæðinu vel. „Það er ekki verið að ýta bílnum út af svæðinu,“ segir hann.

Uppbygging við Miklubraut mikil áskorun

Samkvæmt rammaskipulaginu verður mikil uppbygging íbúðahúsa meðfram Miklubrautinni. Spurður um nálægð íbúða við þessa miklu umferðagötu segir Dagur að með tilliti til hljóðvistar sé slíkt auðvitað áskorun sem sé ekki auðleyst, en þau mál þurfi að leysa áður en borgin muni samþykkja deiliskipulag. Þá vísar hann til þess að lengi hafi menn viljað hafa stóra grasfláka milli stofnbrauta og byggingareita, en að það sé mögulega óþarfi og að grasbalarnir og fjarlægðin auki hávaðann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert