Ánægð með leiðréttingu útlendingalaga

Chuong Le Bui mun halda áfram störfum á Nauthóli eftir …
Chuong Le Bui mun halda áfram störfum á Nauthóli eftir áramót. mbl.is

Chuong Le Bui, víetnamski matreiðsluneminn sem óttaðist um tíma að verða send úr landi vegna tæknilegra mistaka við setningu nýrra útlendingalaga, segist ánægð að heyra að búið sé að breyta þeim.

„Já, ég er glöð en samt bara enn að bíða eftir dvalarleyfinu,“ segir Chuong í samtali við mbl.is. Hún mun halda áfram störfum á veitingastaðnum Nauthóli eftir áramót og segist síðan stefna á að setjast aftur á skólabekk í ágúst.

„Nú verður ný umsókn hennar um dvalarleyfi væntanlega samþykkt, fyrst það er búið að leiðrétta lögin,“ segir Björn Ingi Björnsson, yfirmatreiðslumaður á Nauthóli. Hann segir dvalarleyfisumsókn Chuong þurfa að fara aftur í ferli hjá Útlendingastofnun, sem muni væntanlega kosta hana einhverja fjármuni.

„Að öðru leyti er hún bara búin með önnina sína í skólanum og búin að vera að vinna niðri á Nauthóli og mun halda því áfram eftir áramót. Það er svo sem ágætt að það sé búið að leiðrétta þetta, enda ansi stórt og mikið klúður, finnst manni.“

Hún ætlaði að pakka saman og fara

Björn Ingi bendir á að ekki hefðu endilega allir sem mögulega hefðu getað lent í þeirri stöðu sem skapaðist vegna ónákvæms orðalags útlendingalaganna haft jafn gott stuðningsnet og Chuong.

„Ef Chuong hefði ekki haft Ingu Lillý sem lögfræðing á bak við sig og hefði verið að vinna á einhverjum stórum vinnustað, þar sem hún hefði gleymst í fjöldanum, hefði hún mögulega bara pakkað saman og farið og ekkert tekið þennan slag. Það er í raun bara heppni að það sé hún sem lendir í þessu, fyrst af öllum.

Sumt fólk tekur svona hlutum frá Útlendingastofnun bara mjög bókstaflega, eins og hún ætlaði að gera fyrst, hún ætlaði náttúrlega bara að pakka saman og fara heim og hélt að þetta væri vonlaust dæmi,“ segir Björn Ingi, sem telur þó mjög jákvætt að það sé búið að leysa málið hratt og vel á þinginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert