Hinseginvænn hátíðarkvöldverður

mbl.is/Ómar

Í kvöld munu Samtökin ´78 standa fyrir hinsegin aðfangadegi í húsnæði sínu að Suðurgötu 3. Um er að ræða hinseginvænan viðburð þar sem þeir sem vilja geta komið og fengið hátíðamat og átt góða stund.

Guðmunda Smári Veigarsdóttir stendur fyrir viðburðinum annað árið í röð. „Ég mæti á svæðið rétt fyrir klukkan fimm og byrja að elda og þá sem langar geta mætt og hjálpað til við undirbúning. Við bara erum þarna og höfum hátíðlegt og byrjum að borða og kynnast og spjalla. Svo göngum við frá eftir matinn, í fyrra fórum við svo að spila.“

Guðmunda segir að í fyrra hafi um 10 manns mætt og býst við svipuðum fjölda í ár. „Það eru reyndar ívið fleiri sem ég veit af því að ætli að mæta í ár. Þetta verður hátíðlegt og það eru bara allir velkomnir. Þetta er hinseginvænt umhverfi og bara kósý og þægilegt. Trú er velkomin en við erum ekkert að gera út á hana neitt.“

Eftir matinn verður svo haldinn lítill jólagjafaleikur, og þeir sem tök hafa á geta komið með gjöf upp á 1.000 til 2.000 krónur. „Svo erum við búin að kaupa nokkrar gjafir þannig það á ekki að þurfa að vera neitt mál þó fólk hafi ekki tök á því eða gleymi því.“

Fjölbreyttar aðstæður hinsegin fólks

Aðstæður hinsegin fólks yfir hátíðarnar segir Guðmunda fjölbreyttar. Héð segir erfitt fyrir suma að mæta í fjölskylduboð þar sem ekki allir hafi nöfn og fornöfn á hreinu. „Svo eiga sumir náttúrulega ekki endilega aðstandendur að. Einhverjir sem koma frá útlöndum hafa þurft að slíta öll tengsl við fjölskylduna af því hún sættir sig ekki við að þau séu hinsegin. Svo eignast fólk kannski fjölskyldu, en þetta byggir svolítið á hugmyndinni um „chosen family“. Hún hefur alltaf verið sterk hérna á Íslandi en meira kannski áður en hún er núna því við erum orðin svolítið opnari en við vorum.“

Guðmunda segir Samtökin hafa staðið fyrir svipuðum viðburðum í gegn um tíðina, en nú sé þetta einfaldlega orðið formlegt. „Í gamla daga var matur sem öllum var boðið þannig það var enginn einn af því hann var hinsegin hérna þegar Samtökin voru stofnuð og lengi vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert