Ber ósjálfrátt meiri virðingu fyrir fólki

Hjördís sinnir hér ungabarni á bráðamóttöku sjúkrahússins.
Hjördís sinnir hér ungabarni á bráðamóttöku sjúkrahússins. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

Á meðan stór hluti landsmanna eyddi aðventunni á þeytingi við jólaundirbúning, gjafakaup, hlaðborðshald og tónleika stóðu fjórir íslenskir hjúkrunarfræðingar vaktina í Bangladess.

Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið að störfum í landinu síðan í október á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) og þrjár hjúkurnarkonur á vegum Rauða kross Íslands komu til Bangladess 20. nóvember. Þar unnu þær daga sem nætur, sjö daga vikunnar, á tjaldsjúkrahúsi í nágrenni flóttamannabúða rohingja. Þetta eru þær Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, Dóra Vigdís Vigfúsdóttir og Margrét Rögn Hafsteinsdóttir sem voru þar á vegum Rauða kross Íslands.

„Við vinnum alla daga í sendiför okkar, hér eru engir frídagar,“ segir Ágústa Kristín, jafnan kölluð Hjördís. „Þetta eru langir vinnudagar og það er líka ástæða fyrir að þetta eru bara fjórar vikur, því þetta er mjög krefjandi.“ Teymi 30 sendifulltrúa vinna á tjaldsjúkrahúsinu í 30 daga lotum líkt og vegabréfsáritun þeirra veitir heimild til, en sjúkrahúsið er í nágrenni borgarinnar Cox's Bazar skammt frá landamærum Búrma (Mijanmar).

Hjördís sinnir hér einum þeirra sjúklinga sem leita á bráðamóttökuna. …
Hjördís sinnir hér einum þeirra sjúklinga sem leita á bráðamóttökuna. Hún segir aðdáunarvert hve rohingjarnir séu duglegir og standi vel saman. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

Tæp­lega 630 þúsund rohingj­ar hafa flúið frá Búrma til Bangla­dess frá því í ág­úst á þessu ári er of­beldis­alda gegn þeim hófst í heima­land­inu. Mikill fjöldi þeirra hefst við í flóttamannabúðum í nágrenni Cox's Bazar og eiga þeir margir erfiða för að baki. Í Búrma höfðust þeir við á vírg­irt­um svæðum í Rak­hine-ríki og höfðu tak­markað ferðaf­relsi og er búrmíski her­inn sakaður um að hafa myrt fólk, nauðgað kon­um og brennt hús þeirra. Segja samtökin Læknar án landamæra að 6.700 rohingjar hið minnsta hafi verið drepnir  á einum mánuði eftir að átökin brutust út í ágúst.

Rohingjarnir algjörar hetjur 

Hjördís var í sinni annarri ferð á vegum Rauða krossins  er mbl.is náði sambandi við hana eftir nokkrar tilraunir, en síma- og tölvusamband í búðunum og raunar víðar í Bangladess er lélegt. Fyrsta ferð hennar fyrir Rauða krossinn var til Nepals í kjölfar mannskæðra jarðskjálfta þar í landi 2015 og segir hún aðstæður ólíkar þó að tjaldsjúkrahúsið sé svipað. „Þá störfuðum við á stað þar sem að sjúkrahúsið hafði hrunið, en hérna var ekkert sjúkrahús.“

Sjúkrahúsið er 60 rúma tjaldsjúkrahús [e. field hospital] með einangrunardeild sem tekur 20 rúm, barnadeild, fullorðinsdeildum fyrir konur og karla, bráðamóttöku, heilsugæslumóttöku, skurðstofum og fæðingardeild. „Þetta er skurðsjúkrahús og við sinnum meira skurðtækum vandamálum en flóknum lyflæknavandamálum,“ segir Hjördís og  bætir við að tjöldin veiti skjól fyrir sóli og regni.

Dóra Vigdís Vigfúsdóttir og skurðteymið flytja hér sjúkling á milli …
Dóra Vigdís Vigfúsdóttir og skurðteymið flytja hér sjúkling á milli tjalda. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

Hún segir rohingjana sem til þeirra leita vera algjörar hetjur. „Það er ótrúlegt að sjá hvað fólkið hér er duglegt og hvernig það stendur saman. Til okkar kemur fólk sem er búið að ferðast yfir landamærin frá Búrma og er svo kannski búið að vera hér í mánuð og þeir einu sem standa eftir af fjölskyldunni eru kannski amman og barnabarnið.“ Hjördís segir starfsfólk heyra fjöldann allan af slíkum sögum og augljóst sé að mikið hafi gengið á. „Þess vegna er svo frábært að sjá hvað þau eru sterk og dugleg. Rohingjarnir eru algjörar hetjur.“ 

Heilsufar margra flóttamanna slæmt

Enginn tími gefst til skoðunarferða og allar stundir utan svefns fara í sjúkrahúsið eða heimsóknir á heilsugæslustöðvar í flóttamannabúðunum, en unnið er á tólf tíma vöktum. Hjördís sjálf starfar á bráðadeildinni  og segir 170-230 manns fara þar í gegn á hverjum degi. „Það eru ekkert allir sem leggjast inn á spítalann, en það eru samt fjölmargir sem þurfa að leggjast inn vegna vandamála sem við aðrar aðstæður væru ekki flókin.“ Heilsufar margra flóttamanna sé slæmt og því þurfi fólk aukinnar aðstoðar við.

Margrét Röfn Hafsteinsdóttir fyrir utan kvennadeildina þar sem hún starfaði. …
Margrét Röfn Hafsteinsdóttir fyrir utan kvennadeildina þar sem hún starfaði. Með henni á myndinni eru nokkri hjúkrunarfræðingar frá Bangladess sem verið er að þjálfa til að taka við starfinu í búðunum. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

„Fólk þarf oft hjálp við að komast til dæmis yfir ofþurrk, ofþornun út af meðgöngu og öðru þess  háttar. Við höfum líka fengið inn nokkuð af mislingatilfellum  og svo sjáum við töluvert af sárum og sýktum sárum, sem þarf að hreinsa. Eins kemur fólk inn með öndunarfærasýkingar, lungnabólgu og þá eru höfuðverkur og hiti algengir kvillar hér,“ útskýrir Hjördís. „Síðan eru það slys, t.d. beinbrot, skurðir, bílslys og þess háttar. Svo má heldur ekki gleyma því að lífið heldur áfram, þannig að fólk sem er til að mynda með sykursýki eða astma kemur líka til okkar.“

Barnaveiki, mislingatilfellum og öðrum sambærilegum smitsjúkdómum sem gera má ráð fyrir þar sem margir koma saman á litlu svæði er svo sinnt í einangrunartjaldinu.

Hjördís segir fólkið ekki vel haldið, en UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur varað við vannæringu rohingja-barna og segir í sumum tilfellum um langvarandi vanda að ræða. Hjördís kannast við slíkt. „Hér sjáum við líka krónísk vandamál sem ekki eru endilega ný af nálinni,“ segir hún.

Hjördís og Dóra framan við tjald sitt í Víkingaþorpinu svo …
Hjördís og Dóra framan við tjald sitt í Víkingaþorpinu svo nefnda. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

Þar sem sjúkrahúsið er skurðsjúkrahús miðast þeirra sérsvið við heilsufarsvanda því tengdan, en fjöldi góðgerðarsamtaka og stofnana sem Rauði krossinn á í samstarfi við heldur úti heilbrigðisþjónustu á svæðinu. „Hér hafa t.d. þó nokkur börn verið tekin með keisaraskurði, einnig hafa nokkrir botnlangar verið teknir, fótbrot löguð og brunasjúklingum sinnt.“

Dáist að þeim sem fara út fyrir þægindarammann 

Spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að gefa kost á sér í hjálparstarf segir Hjördís það hafa blundað í sér frá því hún var í hjúkrunarfræðináminu að taka þátt í hjálparstarfi á erlendri grund. „Ég hef alltaf dáðst að fólki sem þorir að fara út fyrir sinn þægindaramma og takast á við nýjar áskoranir og þetta er mín leið til þess að gera það,“ segir Hjördís.

Rauði krossinn séu þau samtök sem hún hafi hvað mest horft til í þessu sambandi. „Bæði af því að mér finnst starfsemin þar alveg frábær, en einnig af því að þeir halda svo vel utan um sitt fólk. Það er líka búið að vera alveg magnað að taka þátt í þessu bæði hér og í Nepal,“ segir hún.  

Hér setur Hjördís gips á ungan sjúkling með aðstoð eins …
Hér setur Hjördís gips á ungan sjúkling með aðstoð eins heilbrigðisstarfsmannanna frá Bangladess, en verið er að þjálfa heimamenn upp í að taka við sjúkrahúsinu. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

Hægt að gera margt gott með litlu

„Það er svo frábært að upplifa hversu mikið er hægt að gera og hversu margt gott hægt að láta af sér leiða án þess að hafa mikið af búnaði. Við þurfum ekki alltaf að vera á hátæknisjúkrahúsum með allar fínustu græjur og pirrast yfir því að það sé ekki allt fullkomið hjá okkur. Það er hægt að sinna ótrúlegum fjölda og veita góða þjónustu með einföldum atriðum.“

Hjördís segir ferðirnar til Nepals og Bangladess líka óneitanlega hafa haft áhrif á sig, enda breyti öll upplifun manni að ákveðnu leyti. „Núna finnst mér það til dæmis einkennileg tilhugsun að allir séu á hlaupum að kaupa jólagjafir, finna jólakjólinn og skella sér á jólatónleika og allt þetta,“ segir Hjördís, en viðtalið var tekið skömmu fyrir jól.

Dóra sinnir hér ungabarni sem kom til aðhlynningar með móður …
Dóra sinnir hér ungabarni sem kom til aðhlynningar með móður sinni. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir

„Á meðan er maður að sinna fólki hér á hverjum degi sem ekki hefur mikið á milli handanna og það er ekki mjög jólalegt hjá okkur núna. Síðan skella jólin á manni við heimkomuna,“ bætir hún við, en þær Hjördís, Dóra og Margrét héldu heim rétt fyrir jól og út hélt Sigurjón Örn Stefánsson svæfingalæknir sem mun starfa í búðunum fram í janúar. „Maður ber líka ósjálfrátt meiri virðingu fyrir fólki sem stendur sig vel í þessum aðstæðum eins og rohingjarnir eru staddir í núna.“

Hægt er að leggja neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir rohingja lið með því að senda sms-skilaboðin TAKK í númerið 1900 og eru þá 1900 krónur dregnar af símreikningi.

Hjördís á bráðamóttökunni. Hún segir dvölina vera góða áminningu um …
Hjördís á bráðamóttökunni. Hún segir dvölina vera góða áminningu um að hægt sé að láta gott af sér leiða án þess að vera alltaf með fullkomnustu græjur við höndina. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir
Dóra sinnir hér barni sem kom á bráðamóttökuna með mislinga. …
Dóra sinnir hér barni sem kom á bráðamóttökuna með mislinga. Mislingar og barnaveiki eru meðal þeirra sjúkdóma sem sinnt er í einangrunartjaldinu. Ljósmynd/Ágústa Hjördís Kristinsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert