Alvarlegt rútuslys við Kirkjubæjarklaustur

Hringveginum hefur verið lokað vegna slyssins.
Hringveginum hefur verið lokað vegna slyssins. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Alvarlegt rútuslys varð vestan við Kirkjubæjarklaustur núna rétt fyrir hádegi. Á fjórða tug farþega voru í rútunni. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi segir í samtali við mbl.is að einn sé látinn og sex aðrir séu alvarlega slasaðir. Þá hafi nokkur fjöldi slasast sem kalli þó ekki á forgangsflutning.

Samkvæmt upplýsingum frá sjónarvotti á staðnum fór rútan út af í mikilli hálku. Hann segir að tveir farþegar rútunnar hafi lent undir rútunni.

Oddur staðfestir einhver fjöldi farþega hafi hlotið beinbrot og önnur meiðsli til viðbótar við þá sjö sem hafi verið alvarlega slasaðir. Hefur hópslysateymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verið virkjað, auk þess sem mannskapur hefur verið sendur frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Landspítalanum. Þá er greiningarsveit frá lögreglunni á Suðurlandi einnig farin austur.

Óskað var eftir tveimur þyrlum frá Landhelgisgæslunni austur og þá er fjöldi annarra viðbragðsaðila kominn eða á leiðinni austur.

Slysið varð vestan af Kirkjubæjarklaustri rétt fyrir hádegi í dag.
Slysið varð vestan af Kirkjubæjarklaustri rétt fyrir hádegi í dag. Kort/mbl.is

Þjóðvegi hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur og verður á meðan unnið er að björgun á vettvangi. Unnið er að því að koma á hjáleið um Meðallandsveg 204. Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er tekið fram að Meðallandsvegur sé að hluta til frumstæður, einbreiður malarvegur og er fólk því beðið að fara með sérstakri gát.

Aðgerðarstjórn er virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi og að auki er samhæfingastöðin í Skógarhlíð virkjuð.

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra voru á fjórða tug farþega í rútunni þegar hún lenti utan vegar og valt. Segir þar að nokkrir séu alvarlega slasaðir og margir með minniháttar áverka. Farþegarnir eru erlendir ferðamenn. Aðgerðarstjórn á Suðurlandi hefur virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi og að auki hefur samhæfingastöðin í Skógarhlíð verið virkjuð. Þá hefur fjöldahjálparstöð verið opnuð á Kirkjubæjarklaustri.

Allt tiltækt lið viðbragðsaðila á svæðinu hefur verið kallað á vettvang. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-SYN og TF-LIF, eru nú á leið þangað. Búist er við að þær lendi þá og þegar. Landspítalinn hefur verið settur á aukið viðbragð og sjúkrastofnanir víða um land eru í viðbragðsstöðu.

Þjóðvegi nr. 1 hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur og verður svo á meðan unnið er að björgun á vettvangi. Búast má við straumi sjúkrabíla og annarra viðbragðsaðila og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitsemi og þolinmæði á meðan. Unnið er að því að koma á hjáleið um Meðallandsveg 204. ​

Uppfært 12:43

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru báðar þyrlurnar lentar á vettvangi. Um borð í þyrlunum voru tveir þyrlulæknar og mannskapur frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu en þær munu flytja alvarlega slasaða rútufarþega á sjúkrahús.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert