Rútan hafnaði utanvegar eftir aftanákeyrslu

Rútan endaði utan vegar eftir árekstur við fólksbifreið.
Rútan endaði utan vegar eftir árekstur við fólksbifreið. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Öllum slösuðum farþegum rútunnar sem valt við Klaustur hefur verið komið í skjól, annaðhvort inn í bíla eða í fjöldahjálparmiðstöð á Kirkjubæjarklaustri. Einn farþegi rútunnar lést á vettvangi.

Slysið varð með þeim hætti að rútan hafnaði aftan á fólksbifreið með þeim afleiðingum að rútan fór út af. Mikil hálka var á veginum og bratt niður af honum þar sem slysið varð.

Tveir farþegar höfnuðu undir rútunni og slösuðust sjö farþegar alvarlega. 32 farþegar rútunnar eru taldir minna slasaðir, aðallega með beinbrot og skrámur.

Fjöldi viðbragðsaðila hefur verið sendur á vettvang og hafa bráðamóttökur Landspítalans og Heilbrigðisstofnun Suðurlands virkjað viðbragðsáætlanir sínar vegna hópslysa. Aðgerðastjórn er í björgunarmiðstöðinni við Árveg á Slefossi auk þess sem samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð. Þjóðvegi nr. 1 hefur verið lokað vegna slyssins og hjáleið opnuð um Meðallandsveg 204.

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks er á vettvangi og björgunarsveitir og starfsmenn Vegagerðarinnar hafa aðstoðað á slysstað, greiningardeild lögreglunnar á Suðurlandi hefur verið send á vettvang auk þess sem fjöldahjálparstöð hefur verið virkjuð í grunnskólanum á Kirkjubæjarklaustri. Sérsveitarmenn lögreglu og almennir lögreglumenn aðstoða einnig.

Þrjár þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang slyssins og eru tvær þeirra lagðar af stað með alvarlega slasaða rútufarþega, alls tólf manns. Önnur þyrla Gæslunnar er á vettvangi og sú þriðja hefur verið kölluð út. Í þyrlunum voru tveir þyrlulæknar auk slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Minna slasaðir sjúklingar rútunnar verða fluttir á sjúkrahús með sjúkrabílum, en sjúkrabifreiðar frá Vík, Kirkjubæjarklaustri, Höfn, Hvolsvelli og Selfossi eru á vettvangi.

Gult viðbragðsstig er nú á Landspítala vegna slyssins og mikið álag. Starfsfólk hefur verið kallað á vakt, einkum á skurðstofum spítalans.

Aðgerðir gengið vel að mati forstjóra

Að sögn Herdísar Gunnarsdóttir, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu), eru læknir og fjórir hjúkrunarfræðingar frá HSu á Höfn í Hornafirði á vettvangi og sinna slösuðum þar, tveir læknar og fjórir hjúkrunarfræðingar eru rétt ókomnir á slysstað og eru staddir rétt austan við Vík í Mýrdal.

Bráðamóttaka HSu á Selfossi er búin undir að taka á móti 16 til 20 farþegum rútunnar sem eru minna slasaðir. Alls eru 32 farþegar rútunnar í hópi minna slasaðra, en almennt eru þeir með skrámur eða minniháttar beinbrot. Sex læknar og tíu hjúkrunarfræðingar eru í viðbragðsstöðu á Selfossi, búnir undir að annast fólkið.

Slysið varð vestan af Kirkjubæjarklaustri rétt fyrir hádegi í dag.
Slysið varð vestan af Kirkjubæjarklaustri rétt fyrir hádegi í dag. Kort/mbl.is

„Þetta er háorkuslys svokallað og það er brýnt að koma öllum á Selfoss til nánari greiningar á einkennum. Þó svo fólk líti út fyrir að vera lítið slasað getur margt gerst,“ segir Herdís og vísar til mögulegra innvortismeiðsla. Hún bætir því við að aðgerðir á vettvangi og á sjúkrahúsunum hafi gengið eins og í sögu.

„Það er líka mikil mildi að þetta henti á fámennasta íbúasvæði Suðurlandsins, allir heilbrigðisstarfsmenn í grennd við slysstaðinn gátu strax farið á slysstað,“ segir Herdís og bendir á að meira álag sé að jafnaði nærri Selfossi og helstu ferðamannastöðum á Suðurlandi.

Hringveginum hefur verið lokað vegna slyssins.
Hringveginum hefur verið lokað vegna slyssins. Ljósmynd/Jónas Erlendsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert