Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til að kaupa færri flugelda þessi áramót en áður, en í tilkynningu á vefsíðu stofnunarinnar er rifjað upp að í fyrra hafi mikið magn svifryks safnast upp yfir höfuðborginni. Hafi hálftímastyrkur rétt eftir miðnætti farið upp í tæp 2.500 µg/m3 en hæsta gildið vikuna áður var um 170 µg/m3. Þá var sólarhringsstyrkur efnisins um 160 µg/m3, en heilsuverndarmörkin eru 50 µg/m3.
Svifryksstyrkur þennan sólarhring var því rúmlega þrefalt leyfilegt sólarhringsgildi fyrir efnið og til viðbótar má nefna að sólarhringsmeðaltal svifryks yfir hvert ár er yfirleitt undir 20µg/m3 á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar fyrir gamlárskvöld er gert ráð fyrir köldu og frekar hæglátu veðri á öllu landinu, en á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir -4°C og 4 m/s.
Umhverfisstofnun segir einnig önnur neikvæð áhrif af flugeldum. „Auk neikvæðra áhrifa svifryks á menn og dýr, geta verið margskonar önnur efni í flugeldum. Þar má nefna þungmálma á borð við blý, kopar og sink.“
Stofnunin telur þó ekki að hætta eigi alveg að skjóta upp, en að fækka flugeldunum. „Það er þó um að gera að njóta áramótanna og leyfa sér að skjóta aðeins upp en munum að gæði eru betri en magn. Vöndum valið á flugeldum, kaupum færri og njótum betur. Verum upplýst um áramótin,“ segir á vefsíðu Umhverfisstofnunar.