Sævar Helgi vill banna flugelda

Sævar Helgi Bragason
Sævar Helgi Bragason mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og kennari, leggur til að notkun almennra flugelda verði bönnuð. Hann greinir frá þessu á twittersíðu sinni.  Sævar segir umhverfissjónarmið eiga að vega þyngra en gamlar hefðir og tiltekur reyk- og rykmengun, sóðaskap og hávaðamengun sem fylgifiska flugeldaæðisins. 

Flugeldum fylgir mikil brennisteins- og svifryksmengun. Á fyrstu klukkustund ársins 2017 mældist svifryksmengun við Grensásveg í Reykjavík 1.451 míkrógramm á rúmmetra, en heilsuverndarmörk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og þykir áhyggjuefni er magn svifryks fer yfir þau mörk. Fylgjast má með svifryksmengun í borginni hér.

Björgunarsveitir landsins eru langstærsti flugeldasali landsins og hafa þær stærstan hluta sinna tekna af flugeldasölu. Sævar leggur til að í stað flugeldakaupa styrki landsmenn björgunarsveitirnar með beinum fjárframlögum, hafi þeir tök á. Sjálfur lagði hann 50.000 krónur inn á Slysavarnafélagið Landsbjörg fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert