Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og kennari, leggur til að notkun almennra flugelda verði bönnuð. Hann greinir frá þessu á twittersíðu sinni. Sævar segir umhverfissjónarmið eiga að vega þyngra en gamlar hefðir og tiltekur reyk- og rykmengun, sóðaskap og hávaðamengun sem fylgifiska flugeldaæðisins.
😩Flugeldaauglýsingarnar byrjaðar. Það ætti að banna almenna notkun flugelda út af reyk- og rykmengun, sóðaskap og hávaðamengun
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) December 26, 2017
Flugeldum fylgir mikil brennisteins- og svifryksmengun. Á fyrstu klukkustund ársins 2017 mældist svifryksmengun við Grensásveg í Reykjavík 1.451 míkrógramm á rúmmetra, en heilsuverndarmörk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og þykir áhyggjuefni er magn svifryks fer yfir þau mörk. Fylgjast má með svifryksmengun í borginni hér.
Björgunarsveitir landsins eru langstærsti flugeldasali landsins og hafa þær stærstan hluta sinna tekna af flugeldasölu. Sævar leggur til að í stað flugeldakaupa styrki landsmenn björgunarsveitirnar með beinum fjárframlögum, hafi þeir tök á. Sjálfur lagði hann 50.000 krónur inn á Slysavarnafélagið Landsbjörg fyrr í dag.
Legg til að í stað þess að kaupa flugelda styrki fólk Landsbjörg eða aðrar björgunarsveitir. Þær eiga það auðvitað skilið. Hér er mitt framlag. Leggið ykkar af mörkum, sama hversu háa fjárhæð þið ráðið við og dragið um leið úr mengun pic.twitter.com/M1Q6FI1X8j
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) December 27, 2017