Franska eldunaraðferðin Sous vide hefur slegið í gegn nú í lok ársins, en bók verðlaunakokksins Viktors Arnar Andréssonar, Stóra bókin um Sous vide, seldist t.a.m. upp fyrir jólin.
Samkvæmt upplýsingum frá ELKO seldust Sous vide-tæki í þúsundatali og voru að öllum líkindum vinsælasta jólagjöfin í ár. Fyrirtækið Margt smátt seldi einnig mörg Sous vide-tæki í þúsundavís í samstarfi við Lækninn í eldhúsinu, Ragnar Frey Ingvarsson.
Með tækjunum, sem nú fást víða í raftækjaverslunum, má elda kjöt, fisk, grænmeti og annan mat með mikilli nákvæmni, en hráefnið er á meðan haft í plastpoka ofan í vatni. Stilla má hitastig vatnsins með mikilli nákvæmni og í sumum tilfellum tengja tækin þráðlaust við snjallsíma, að því er fram kemur í umfjöllun um þessa eldunaraðferð í Morgunblaðinu í dag.