Endurnýjun sjúkrabílaflotans aðkallandi

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu sjúkrabíla á Íslandi í ályktun sem hefur verið send til heilbrigðisráðuneytisins.  LSS leggur áherslu á að málefnum sjúkraflutninga í landinu verði komið í ásættanlegt horf hið fyrsta, enda er endurnýjun bifreiða og tækjakosts nú þegar farin að hafa áhrif á málaflokkinn. Þau áhrif munu verða meiri eftir því sem lausn málsins dregst frekar.

Að mati sambandsins vantar heildarstefnu varðandi sjúkrabílaflota landsins. Óráðlegt sé að fjölga minni gerð sjúkrabifreiða, sem að mati sambandsins henta einungis til almennra sjúkraflutninga, þar sem um lágmarksinngrip er að ræða í sjúklingameðferð. Í fréttatilkynningu segir að tilburðir hafi verið til slíks á sínum tíma í sparnaðarskyni. „Þessar minni bifreiðar bjóða ekki upp á viðunandi aðstöðu til þess að veita bráðveiku og slösuðu fólki lífsnauðsynlega aðstoð á leið á sjúkrahús. Í því sambandi má ekki heldur gleyma að í alvarlegum tilfellum eru oft fleiri en einn sjúkraflutningamaður að sinna sjúklingi. Eins þurfa aðrir heilbrigðisstarfsmenn t.a.m. læknar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður oft að vinna með sjúkraflutningamönnum í sjúkrabifreiðum, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Fagdeild sjúkraflutningamanna hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur miklar áhyggjur af þróun þessara mála.“

Haft er eftir Stefáni Péturssyni, formanni LSS, að menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna hafi aukist mikið á undanförnum árum. „Ábyrgð og krafa um inngrip og þjónustu hefur líka vaxið í takt við þetta. Verulega hefur skort á samráð um val sjúkrabifreiða sem keyptar eru til landsins. Samráð vegna þessa þarf að vera á milli yfirvalda og sjúkraflutningamanna og þeirra sem veita þjónustu utan sjúkrahúsa.“

Sjúkraflutningamenn krefjast þess að lagt sé meira fjármagn í kaup á sjúkrabílum og tilheyrandi búnaði. Þar megi hagkvæmnissjónarmið ekki eingöngu ráða ferðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert