Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að fátækt á Íslandi væri skömm í þeirri efnahagshagsæld sem nú ríkti, en hún spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag hvort hann væri sáttur að tíu prósent barna byggju við örbirgð hér á landi og hvort hann teldi fjárlagafrumvarpið sýna vilja ríkisstjórnarinnar til að útrýma fátækt barna á Íslandi.
Sérstök umræða fór fram í þinginu í dag um fátækt á Íslandi, en Inga var málshefjandi umræðunar og fjármálaráðherra til andsvara. Kjarni umræðnanna snerist að mestu leyti um stöðu barna í þessu samhengi, en einnig um eldri borgara og öryrkja.
Vísaði Inga í skýrslu Unicef á Íslandi frá árinu 2016 og sagði 9,1% íslenskra barna líða félagslegan og efnislegan skort.
Einnig enti hún á húsnæðislið vísitölu neysluverðs og sagði hann hafa hækkað greiðslubyrði heimila um tugi milljarða á ári. Rakti hún svo m.a. að lög hefðu verið brotin þegar ákveðið hefði verið að hækka lífeyri öryrkja og eldri borgara, en um áramótin hækkar hann um 4,7%. Þannig hefði ekki verið farið eftir fyrirmælum 69. gr. laga um almannatryggingar við ákvörðun lífeyris.
Bjarni gerði fyrirvara við prósentu fátækra barna
Bjarni Benediktsson hafnaði fullyrðingum Ingu um að lög hefðu verið brotin við ákvörðun lífeyrisins, framkvæmd um ákvæðið hefði margoft verið samþykkt af Alþingi. Gerði hann í ræðu sinni fyrirvara við þá fullyrðingu að 10% íslenskra barna byggju við örbirgð. Sagði hann tölurnar byggðar á tekjuviðmiðum þar sem athugað væri hve margir hefðu 60% minna en meðaltekjur segðu til um. Því væri talað um hlutfallslega stöðu gagnvart öðrum hópum.
„Það er of langt gengið að segja að þeir sem falli undir þann hóp, hlutfallslega gagnvart öðrum, búi við aðstæður sem hægt væri að lýsa sem örbirgð,” sagði Bjarni. Sagði hann eðlilegra að miða við tölur frá árinu 2015 þar sem sagði að 2,1% barna liðu efnislegan skort.
Bjarni nefndi einnig að fjárlagafrumvarpið sýndi að vilji ríkisstjórnarinnar væri að taka á þessum málaflokki og benti á að framlög inn í málaflokka velferðarráðuneytisins myndu samkvæmt því hækka um 13%. Einnig nefndi Bjarni að samkvæmt stjórnarsáttmálanum yrði gerð sérstök úttekt á kjörum bágstaddra á kjörtímabilinu.
Fjármálaráðherra benti einnig á að árið 2009 hefði ellilífeyrisþegi haft um 180 þúsund krónur í tekjur á mánuði, en nú væri sú fjárhæð 280 þúsund krónur.
Bjarni benti á að vaxtabóta- og barnabótakerfin væru ófullkomin. Vaxtabótakerfið skilaði þannig t.a.m. mestum bótum til þeirra sem hefðu burði til að taka stærstu lánin. „Ef menn vilja taka til umræðu hér í þinginu út af fátækt, þá þurfum við að stokka þau kerfi upp alveg frá rótum ef þau eiga að nýtast best þeim sem minnst hafa milli handanna,“ sagði Bjarni.
Töluðu fyrir jöfnum tækifærum
Bjarni gerði aðgang að menntun, jöfn tækifæri og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu einnig að umtalsefni. Flestir stjórnarliða sem tóku til máls slógu á sömu strengi, þ.á m. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Í ræðu sinni sagði hún framlög til menntamála hafa verið aukin um sex prósent á ársgrundvelli. Sagði hún frístundakort barna mikilvægt jöfnunartæki og hrósaði sveitarfélögum fyrir framtakið.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði að félagsmálaráðuneytið ráðgerði að fara í stórar aðgerðir í málaflokknum í upphafi nýs árs. Nefndi hann að við úttekt á stöðu barna þyrfti að fara fram samráð þvert á nokkur ráðuneyti og sveitarfélög einnig. Einnig væri ráðgert að velferðarráðuneytið hæfi vinnu við úttekt á stöðu barna að þessu leyti í byrjun nýs árs.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði að hækkun lífeyris eldri borgara og öryrkja um 4,7% væri mistök í fjárlagafrumvarpinu. „Mistökin liggja í því að komman fór á rangan stað. Hækkun til eldri borgara og öryrkja átti að vera 47%, ár aftur í tímann að lágmarki,” sagði hann.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði skattbyrði hafa flust frá ríku fólki til þeirra sem meðaltekjur og lágar tekjur hefðu. Sagði hann ríkisstjórnina ekki ætla að jafna tekjur í landinu með skattkerfinu og samkvæmt frumvarpinu yrðu aldraðir, öryrkjar, ungt barnafólk og sex þúsund börn skilin eftir á fordæmalausu hagvaxtarskeiði. 21 milljarður króna væri gefinn eftir í fjárlagafrumvarpinu sem yrði ekki nýttur í baráttuna gegn fátækt. „Það eru nægir peningar til og ég spyr: Er þessi ríkisstjórn ekki undir forsæti sósíalista?"