Þjóðarsamtal í hættu

Ólafur Stephensen, formaður Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, formaður Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

„Ef það á að þrengja samtalið aftur og búa þannig um hnúta að það séu fyrst og fremst ríkið og bændur, sem gerðu þennan vonda samning, sem eiga að véla um þetta þá er allt eins hægt að hætta þessu samtali og hafa samninginn bara í hinu gamla fari.“

Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um þá ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að leysa upp samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga og skipa nýjan hóp með sjö fulltrúum í stað 13.

Í grein sem Félag atvinnurekenda birti á heimasíðu sinni í morgun er tilurð samráðshópsins rakin. Ólafur segir starfshópinn hafa verið hugmynd þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar þegar búvörusamningurinn var í vinnslu. Hefði þá verið ákveðið að mynda hópinn með það að markmiði að boða til „þjóðarsamtals“ um landbúnaðinn, segir Ólafur og vísar til orða Jóns Gunnarssonar, þáverandi formanns atvinnuveganefndar.

Segir Ólafur að við það hafi ekki verið staðið því þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þá landbúnaðarráðherra, skipaði í starfshópinn stuttu síðar hafi 2/3 hluti nefndarmanna hins vegar verið skipaður fulltrúum viðsemjenda, ríkis og Bændasamtaka.

Því hafi algjörlega vantað upp á sjónarmið þeirra sem tala fyrir frelsi í landbúnaði.

„Það er síðan Þorgerður Katrín [landbúnaðarráðherra á eftir Gunnari Braga] sem tekur málið upp og breikkar samtalið. Tekur meðal annars inn fulltrúa okkar í Félagi atvinnurekenda,“ segir Ólafur.

„Ef ráðherra ætlar að halda sig við upphaflegan tilgang hópsins höfum við engar áhyggjur af því,“ segir Ólafur spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að fulltrúa félagsins verði sparkað úr hópnum.

Hann segist þó ekki átta sig fyllilega á tilgangi þessarar uppstokkunar og bendir á að Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, hafi í samtali við Bændablaðið sagt samstarfið ganga ágætlega 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert