Rökstuðning skorti að miklu leyti

Guðlaugur Þór telur sig ekki hafa forsendur til að taka …
Guðlaugur Þór telur sig ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til efnislegs mats nefndarinnar. mbl.is/Hanna

„Að mati setts ráðherra eru skýringar nefndarinnar óljósar og gefa í raun litlar sem engar upplýsingar um það hvernig mati nefndarinnar var háttað.“ Þetta segir í bréfi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, setts dómsmálaráðherra í vegna skipunar í átta embætti héraðsdómara, til dómnefndar um hæfni umsækjenda.

Í bréfi setts dómsmálaráðherra eru tíu athugasemdir lagðar fram varðandi umsögn nefndarinnar. Meðal annars furðar settur ráðherra sig á að dómnefndin hafi ekki notast við stigatöflu í mati sínu, enda séu vinnubrögðin að þessu leyti í ósamræmi við fyrri framkvæmdir slíkrar umsagnar.

Þá tekur hann ýmis dæmi um það sem honum þykir skjóta skökku við í umsögninni, svo sem að í þættinum um reynslu af dómarastörfum sé umsækjanda raðað efst sem hefur átta ára reynslu sem settur dómari, en umsækjanda raðað skör lægra sem var skipaður héraðsdómari í um tuttugu ár.

Engu nær um hvaða umsækjandi stóð sig best

„Í sjötta lagi má nefna að dómnefndin virðist hafa lagt talsverða áherslu á viðtöl við umsækjendur, en þrátt fyrir það er í umsögninni ekki að finna sérstakt mat á þessum þætti og er settur ráðherra t.d. engu nær um það hvaða umsækjandi stóð sig best í viðtölunum og hvers vegna eða hversu mikið vægi þessi þáttur hafði á mat dómnefndarinnar,“ segir í bréfinu.

Þá kveðst settur dómsmálaráðherra ekki átta sig á hvaða forsendur liggi á baki þess hvaða umsækjendur þyki hæfastir til að verða skipaðir í embætti við Héraðsdóm Reykjavíkur, hver þyki hæfastur til að vera með starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur og loks hver sé metinn hæfastur til að verða skipaður í embætti dómara með starfsstöð við Héraðsdóm Vestfjarða.

Óskar ekki eftir nýrri umsögn vegna tímaþrengsla

„Þar sem rökstuðning skortir að miklu leyti fyrir niðurstöðum nefndarinnar hefur settur ráðherra ekki forsendur til þess að taka afstöðu til efnislegs mats nefndarinnar og leggja mat á hvort hann tekur undir mat hennar eða hvort tilefni sé til þess að gera tillögu til Alþingis um skipun annarra umsækjenda.“

Vegna þess hve skammur tími sé til stefnu þar til hinir nýju dómarar þurfa að taka til starfa kemur fram að settur ráðherra muni ekki óska eftir nýrri umsókn nefndarinnar. Þess í stað fer hann á leit við nefndina að hún útskýri betur með hvaða hætti matið  var framkvæmt og hvers vegna umræddir átta umsækjendur voru taldir hæfari en aðrir.

Þá er þess óskað að nefndin skoði athugasemdir setts ráðherra sem nefnd voru í bréfinu, og taki afstöðu til þess hvort athugasemdirnar gefi tilefni til að breyta einstökum þáttum umsagnarinnar.

Bréfið í heild sinni má lesa á vef dómsmálaráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert