Vill laga „frekjukast forsetans“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytingartillaga þess efnis að íslenska ríkið veiti 100 milljóna króna viðbótarframlag til reksturs Sameinuðu þjóðanna er meðal þeirra tillagna sem ræddar hafa verið á Alþingi í kvöld. Þriðja umræða um fjárlög ársins 2018 stendur nú yfir. 

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, greindi frá breytingartillögunni sem Björn Leví Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Þórarinsson og Ólafur Ísleifsson lögðu fram. 

Smári talaði í ræðu sinni um Donald Trump Bandaríkjaforseta og segir Smári ákvörðun Trumps um að færa sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem vera „fáránlegustu diplómatísku aðgerð sem ég held að ég hafi orðið vitni að, að minnka framlög til Sameinuðu þjóðanna um 258 milljónir Bandaríkjadollara.“

„Þetta er peningur sem skiptir miklu máli fyrir þá stofnun sem Sameinuðu þjóðirnar eru,“ sagði Smári í ræðu sinni.

Smári segir að með því að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels hafi Trump valdið alls konar óskunda.

Með breytingartillögunni um 100 milljóna króna viðbótarframlag til reksturs Sameinuðu þjóðanna vill Smári reyna að „laga aðeins þetta frekjukast forsetans.“

Smári segir að með auknu framlagi, þó lítið verði, myndi Ísland vera góð fyrirmynd annarra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Þriðja og síðasta umræða um fjárlagafrumvarp næsta árs hófst klukkan hálfsjö í kvöld og stendur enn yfir.

Uppfært klukkan 23:55: 

Breytingartillögunni var hafnað í atkvæðagreiðslu um frumvarpið. 34 greiddu atkvæði gegn tillögunni, 21 með og einn greiddi ekki atkvæði.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert