Borðar bara kjöt og hefur aldrei verið betri

Ævar Austfjörð borðar eingöngu kjöt og hefur að eigin sögn …
Ævar Austfjörð borðar eingöngu kjöt og hefur að eigin sögn aldrei liðið eins vel. Samsett mynd

Áramótin eru tími breytinga í huga margra. Fólk reynir að venja sig af slæmum siðum eða breyta til í lífinu. Janúar hefur þess vegna oft verið lagður undir margs konar átök. Einhverjir ákveða að drekka meira af vatni eða bursta tennurnar tvisvar á dag á meðan aðrir gera drastískar breytingar á mataræðinu.

Það æði sem sækir hratt í sig veðrið um þessar mundir er „kjötætu-janúar“ (e. Carnivore January) þar sem tilgangurinn er að borða ekkert nema kjöt í heilan mánuð. Upphafsmaður átaksins er bandaríski læknirinn og íþróttamaðurinn Shawn Baker sem hefur lifað eingöngu á kjöti í rúmt ár og aldrei liðið betur að eigin sögn.

Ævar Austfjörð, sem verður fimmtugur á árinu. kjötiðnaðarmaður og matartæknir, er einn af frumkvöðlunum hér á landi í þessum lífsstíl en hann prófaði að borða eingöngu dýraafurðir í janúar á síðasta ári. Hann fann mikinn mun á sér andlega og líkamlega í lok mánaðarins og ákvað að kynna sér þessa tegund mataræðis betur.

Ævar Austfjörð.
Ævar Austfjörð. Aðsend mynd

Fimmtugur á árinu en samt að bæta hraða og snerpu sem hann hélt að kæmi ekki aftur

„Þá komst ég í samband við Shawn Baker sem stóð fyrir rannsókn sem gekk út á að fá fólk til að borða eingöngu kjöt í 90 daga. Ég var einn af 200 sem tóku þátt í rannsókninni,“ segir Ævar.

„Þetta hefur tvímælalaust bætt heilsu mína. Það er svo margt sem gerist. Ég hef betri einbeitingu, jafnari og betri starfsorku og orku í gegnum daginn. Ég er öflugri í mínum æfingum. Ég æfi reglulega og hef verið að bæta mig í æfingum sem ég hélt ég myndi ekki bæta mig í. Ég er að verða fimmtugur og hélt ég væri kominn á þann stað að ég væri í góðri varnarbaráttu,“ segir Ævar og hlær en hann æfir og kennir karate í Vestmannaeyjum. „Ég hef bætt mig í hraða og snerpu sem ég hélt að væri glatað að eilífu.“

„Harðasta“ útgáfa kjötætu-matarræðisins er rautt kjöt og vatn en Ævar …
„Harðasta“ útgáfa kjötætu-matarræðisins er rautt kjöt og vatn en Ævar segir hvern og einn þurfa að finna sína línu í þessu. Hann segir fólk vel mega borða kjúkling, fisk og þess vegna dýraafurðir. Thinkstock.com

Rannsóknin stóð yfir frá miðjum ágúst þangað til í nóvember á síðasta ári og segir Ævar heilsuna hafa verið svo góða undir lok rannsóknarinnar að hann hafi ákveðið að halda áfram. „Kólesterólið lagaðist og samsetningin á því er mun betri en áður, blóðsykurinn er stöðugur og blóðþrýstingurinn hefur lækkað,“ segir Ævar en hann var í efri mörkum blóðþrýstings sem tók að lækka eftir tvo mánuði af mataræðinu.

„Ég sef betur eftir að liðamótaverkirnir minnkuðu eða hurfu og ég er hættur að taka fæðubótarefni. Ég borða bara rautt kjöt og ekkert annað,“ segir Ævar en þó með einni undantekningu; hann drekkur kaffi. „Það er eina plöntuafurðin sem ég læt ofan í mig.“

Borðar eitt og hálft kíló af kjöti á dag

Ævar er að borða upp undir eitt og hálft kíló af kjöti á dag í tveimur máltíðum. „Ég borða meira en flestir. Ég er 100 kíló og 1,87 metrar á hæð,“ segir Ævar.

„Ég borðaði til dæmis hálft lambalæri í kvöldmat í gær sem ég úrbeinaði sjálfur og steikti á pönnu. Í morgun borðaði ég svo einn fjórða af lambalæri ásamt tveimur 200 gramma hamborgarabuffum,“ segir Ævar en hann borðar á milli níu og tíu á morgnana og svo á milli sex og sjö á kvöldin. „Þú borðar þegar þú ert svangur og þangað til þú ert saddur. Það eru engir matartímar þannig séð,“ segir Ævar um fyrirkomulag matmálstíma.

Pulsur án mjöls og kolvetnalausar eru leyfilegar að sögn Ævars.
Pulsur án mjöls og kolvetnalausar eru leyfilegar að sögn Ævars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Ævars er ekki nauðsynlegt að borða eingöngu rautt kjöt til að tileinka sér lífsstílinn, heldur sé líka í lagi að borða fisk og kjúkling, og þess vegna kolvetnalágar dýraafurðir eins og ost og smjör. „Strangasta útgáfan er að vera í rauðu kjöti og vatni eingöngu, en á hinum endanum er mest annað leyft,“ segir Ævar. „Þetta eru ekki trúarbrögð. Fólk finnur sína línu. Mín liggur í rauðu kjöti, vatni og kaffi. Núna um jólin hef ég alveg borðað einhverja osta. Það verður bara að fylgja þessari línu að kjöt sé yfirgnæfandi meirihluti þess sem þú lætur ofan í þig. En ég mæli samt með að fólk prófi að borða eingöngu kjöt í allavega nokkra daga.

Janúar er tíminn til að prófa eitthvað nýtt

Þetta er í fyrsta skipti sem World Carnivore-janúar er haldinn að frumkvæði Shawns Bakers. Janúar varð fyrir valinu því það eru flestir tilbúnir að prófa eitthvað í janúar. Sá tímapunktur í lífi fólks sem það breytir um lífsstíl og lagar það sem aflaga hefur farið.“

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Ævar játar því að þessi lífsstíll sé dýrari en að lifa á hefðbundnu matarræði, en það muni samt ekki miklu í kostnaði fyrir hann því hann hafi alltaf tekið vítamín og fæðubótarefni með hollu mataræði. „Það er allt farið út, ég þarf engin vítamín með þessu. Þörfin fyrir snefilefni, steinefni og vítamín hverfur þegar þú borðar eingöngu kjöt, eða hæfilega feitt kjöt, og það er reynsla þeirra sem hafa verið á þessu mataræði í lengri tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert