Konurnar sem tóku þátt í #metoo-byltingunni eru manneskjur ársins að mati hlustenda Rásar 2 og áhorfenda Stöðvar 2. Þetta kemur fram á vefmiðlum RÚV og Vísis.
Eins og fram hefur komið í umfjöllunum mbl.is hefur fátt náð að hrista jafn rækilega upp í samfélagi okkar og frásagnir kvenna af framkomu karla í þeirra garð undir merkjum #metoo. Stjórnmálakonur voru þær fyrstu sem tóku frásagnirnar saman hérlendis, birtu nafnlaust og gáfu tóninn um hvernig ætti að stýra umræðunni. Síðan hefur hver hópurinn á fætur öðrum birt sögur af því hvernig kynbundið áreiti og ofbeldi hefur mætt þeim í starfstengdu umhverfi.