Nauðsynlegt að gæta mennskunnar

Katrín Jakobsdóttir fór um víðan völl í sínu fyrsta áramótaávarpi …
Katrín Jakobsdóttir fór um víðan völl í sínu fyrsta áramótaávarpi sem forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti sitt fyrsta áramótaávarp á RÚV í kvöld.

Katrín vakti máls á þeim tækniframförum sem fyrirsjáanlegar eru á næstu árum og áratugum. Hún sagði að þó freistandi væri að spá fyrir um framtíðina þá gæfu slíkar spár oftast betri mynd af nútíðinni en framtíðinni. Að því sögðu væri nauðsynlegt að reyna að átta sig á þeim afleiðingum sem yfirvofandi tæknibyltingar bera í skauti sér. Vélar sinntu æ fleiri störfum og sagði Katrín nauðsynlegt að standa vaktina fyrir mennskuna; tryggja yrði að tæknin yrði öllum til góðs og nýttist til að stytta vinnuvikuna og bæta lífsgæði.

Réttlátari skattbyrði

Katrín gerði ójöfnuð í samfélaginu einnig að umtalsefni sínu og benti á að fjölmargar alþjóðastofnanir, t.d. Alþjóðabankinn, mætu vaxandi ójöfnuð í heiminum sem ógn við hagsæld, frið og lýðræði í heiminum. Þótt jöfnuður á Íslandi mælist mjög lítill í alþjóðlegum samanburði sagði Katrín fulla ástæðu til að gera betur.

Sagði hún mikilvægt að líta til þess hvar ójöfnuðurinn er mestur, en á Íslandi sé það í eignatekjum. Af þeim sökum hækki fjármagnstekjuskattur nú um áramót úr 20 prósentum í 22 prósent, sem Katrín sagði lið í að gera skattbyrðina réttlátari.

Þjóðríkið leysir ekki loftslagsvandann

Loftslagsmálin voru ofarlega á baugi hjá forsætisráðherra, sem fyrr. Katrín sagði loftslagsbreytingar eitt stærsta vandamál sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir og minnti á að þjóðríkið væri ekki til þess fallið að leysa svo stórt verkefni heldur „samhugur okkar þvert á landamæri“.

Ítrekaði hún þau markmið ríkisstjórnarinnar um að Ísland yrði kolefnishlutlaust árið 2040 en margar þjóðir hafa sett sér svipuð markmið, svo sem Frakkar og Svíar sem stefna að hlutleysi árið hafa sett sér svipað markmið fyrir árið 2050.

Á fæðingardeildinni fyrir tíu árum

Að lokum rifjaði hún upp að tíu ár eru í dag síðan hún var stödd á fæðingardeild Landspítalans til að fæða sinn annan son.

„Það var líklega hamingjuríkasta gamlárskvöld lífs míns þó það væri sannarlega ekki áreynsluminnsti dagur sem ég hef lifað," sagði forsætisráðherra áður en hún óskaði landsmönnum gleðilegs árs og gæfu á nýju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka