Ferð með Jóni Gnarr á 500 þúsund

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Frá pönki til pólitíkur nefnast þriggja til fjögurra klukkustunda langar ferðir með Jóni Gnarr, leikara og fyrrverandi borgarstjóra, fyrir ferðamenn. Hver ferð kostar 4.800 dollara eða tæplega 500 þúsund krónur og hámark eru fimm manns í hóp. Hver og einn þarf því að reiða fram um 100 þúsund krónur til að fræðast og ferðast með Jóni í Reykjavík.

„Bókanir ganga fínt þó við höfum ekki enn auglýst. Hann er í túr núna,“ segir Aron Karlsson hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Iceland unplugged sem býður upp á ferðirnar með Jóni. Þess má geta að Jón á einmitt afmæli í dag 2. janúar. Enn sem komið er hafa einungis erlendir ferðamenn bókað ferðirnar enda eru þeir markhópurinn. Aron segir ekki ólíklegt að Íslendingum standi til boða að fara í slíka ferð bóki þeir og reiði fram uppsett verð.

Jón Gnarr eins og fjölmargir aðrir Íslendingar vilja nýta sér ferðamannastrauminn til landsins. Í haust auglýsti hann eftir vinnu á samskiptamiðlinum Facebook. Þar óskaði hann eftir að fá um milljón krónur á mánuði fyrir 50% vinnu og ef fram fer sem horfir gæti það ræst. 

Starfstitlar Jóns eru býsna fjölbreyttir og margir og því ekki furða að margir vilja komast í tæri við Jón Gnarr því hann hefur komið víða við einkum á hinum skapandi vettvangi. Síðast gaf hann út ævisögu eiginkonu sinnar Jógu, Þúsund kossar, auk annarra titla sem hann hefur sent frá sér. Hann hefur leikið í ótal sjónvarpsþáttum, sinnt dagskrárgerð, verið í uppistandi og stofnað stjórnmálaflokk, verið borgarstjóri svo fátt eitt sé nefnt.   

Dagskrá ferðanna er ekki niðurnegld en hópnum verður líklega safnað saman við Höfða og þaðan líklega gengið að Hlemmi, að því er segir í ferðalýsingunni. Jón mun ræða við gestina og reyna að svara helstu spurningum en ferðin tekur mið af hópnum hverju sinni.

Í auglýsingu ferðanna er vitnað í hin ýmsu erlendu tímarit og fræðimenn sem hafa mært Jón Gnarr. Þeirra á meðal er hinn kunni málfræðingur Noam Chomsky sem segir Jón vera „uppáhaldsborgarstjóra sinn“ en Jón vakti meðal annars athygli þegar hann tók þátt í Gleðigöngunni og klæddi sig sem kona. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert