Lögreglunni í Reykjavík hefur borist tilkynning vegna bifreiðar sem virðist vera notuð í leigubílastarfsemi án þess að hafa tilskilin leyfi. Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, segir málið í athugun.
„Ég get svo sem ekkert tjáð mig um það neitt nema þetta er bara í skoðun hjá okkur,“ segir Rafn í samtali við mbl.is. Að sögn hefur lögreglan fengið slíkar ábendingar áður. Rafn segir lögregluna þurfa að geta sannað að fótur sér fyrir ásökunum, helst að ná aðilanum í akstri. „Þetta snýst allt um að við getum sannað brot á viðkomandi.“
Lögreglan skoðar nú hvort ábendingin eigi við rök að styðjast.
Bifreiðin sem um ræðir er að gerðinni Toyota Avensis og hefur leigubílaljós á toppnum. Samkvæmt ökutækjaskrá er hún skráð sem fólksbifreið en ekki leigubíll.