Lýtur ekki boðvaldi ráðherra

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Lögð er áhersla á það í svarbréfi hæfisnefndar um umsóknir um embætti fjögurra héraðsdómara til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, setts dómsmálaráðherra, að nefndin sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem lúti ekki boðvaldi ráðherra. Svarbréfið hefur verið birt á vef dómsmálaráðuneytisins en undir það ritar Jakob Möller, formaður nefndarinnar.

Guðlaugur sendi hæfisnefndinni bréf fyrir jól þar sem gerðar voru nokkrar athugasemdir við mat hennar á hæfni umsækjenda um embættin. Taldi hann ýmsar spurningar hafa vaknað í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar sem svara þyrfti eftir lestur hennar sem og andmæla sem borist hefðu frá 23 af 39 umsækjendum um embættin.

Frétt mbl.is: Skipan dómara tefst fram yfir áramót

Fram kemur meðal annars í svarbréfinu að hæfisnefndin hafi notast við Excel-skjal til grófflokkunar á umsækjendum í upphafi eftir þeim viðmiðum sem lögð væru til grundvallar í lögum. Síðan hafi tekið við frekara mat nefndarinnar meðal annars með hliðsjón af viðtölum og umsögnum. Umrætt vinnuskjal yrði ekki afhent.

Einnig segir í svarbréfinu að megináherslan hafi verið á þrjá stóra þætti, dómarareynslu, reynslu af lögmannsstörfum og stjórnsýslustörfum, og þessir þættir metnir jafnt. þess utan hafi farið fram sérstakt sundurgreint mat á menntun, fræðistörfum, kennslu og útgáfu. Þar færi fram matið sem dregið væri í heildarniðurstöðu.

Frétt mbl.is: Átta metnir hæfastir til héraðsdómara

Er því hafnað að reynsla einstakra umsækjenda hafi ekki verið metin með eðlilegum hætti eins og gerð er athugasemd við í bréfi ráðherra. Því er enn fremur hafnað að andmæli umsækjenda hafi ekki verið gaumgæfð sem skildi. Nefndin hafi farið yfir athugasemdirnar, gert breytingar en niðurstaðan verið óbreytt.

Þá segir að lokum að settur dómsmálaráðherra hafi kosið að gera bréf sitt til dómnefndar opinbert á vef dómsmálaráðuneytisins örfáum klukkustundum eftir að það hafi borist nefndinni þann 29. desember. „Virðist því eðlilegt að svarbréf þetta verði jafnframt birt á vef ráðuneytisins.“ Var bréfið birt á vef ráðuneytisins nú í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka