Í umdæmum lögreglunnar á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum hefur kynferðisbrotum fjölgað verulega á milli ára. Árið 2016 voru 25 brot á Suðurlandi, en á nýliðnu ári voru þau 42, samkvæmt bráðabirgðatölum sem birtar voru í gær. Þar af voru níu nauðganir. Í Vestmannaeyjum voru kynferðisbrotin átta árið 2016 en fjórtán í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá embættinu.
Aukningin á milli ára er þannig 68% á Suðurlandi og 75% í Vestmannaeyjum.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, og Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segja bæði í samtali við mbl.is að þau gætu notað meiri mannskap til að takast á við aukinn brotafjölda í þessum málaflokki.
„Það þarf að bæta í þennan málaflokk fjármagni til að halda í við þetta, svo að rannsóknirnar gangi vel og málshraðinn sé eðlilegur. Ef þú lítur á málshraðann í heild, í kynferðisbrotum, þá er hann orðinn svolítið langur, ef málin fara alla leið upp í dóm. Það er þungbært fyrir fólk sem stendur í þessum málum að málshraðinn skuli ekki vera betri hjá okkur. Eina leiðin til þess að bæta úr því er meiri mannskapur,“ segir Páley, en einungis einn rannsóknarlögreglumaður er starfandi hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Hjá lögreglunni á Suðurlandi eru fjórir rannsóknarlögreglumenn í fullu starfi auk eins lögreglufulltrúa sem annast rannsóknir. Einn rannsóknarlögreglumannanna sérhæfir sig í fjármunabrotum og að sögn Odds hefur lögreglunni á Suðurlandi tekist að vinna þann hluta vel niður, en mál höfðu safnast upp hjá embættinu fyrir þann tíma.
„Hinir geta þá einhent sér í þau mál sem þeir hafa sérþekkingu á, sem eru þessi alvarlegu slys og kynferðisbrot og heimilisofbeldismál, ásamt ýmsu öðru. Það er náttúrulega þannig í sveitalöggunni að þú þarft að geta gert allt,“ segir Oddur.
Hann segir hvern mann sjá að lögreglan á Suðurlandi gæti notað meiri mannskap, en á síðasta ári sá embættið um 51 heimilisofbeldismál, 13 banaslys auk 42 kynferðisbrota.
„Þetta eru allt mál sem í vinnu kosta okkur á bilinu 100-200 tíma. Þá er ég að tala um vinnu allra þeirra sem að því koma, bæði rannsóknar- og ákæruvaldshlutann. Þannig að ef við tökum bara eitt kynferðisbrot og segjum að það taki 180 tíma í rannsókn, þá ertu kominn með einn mannmánuð undir í því. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig menn standa uppréttir eftir þetta,“ segir Oddur.
Hann segist ekki vera viss um að aukinn fjöldi tilkynntra brota þýði að fleiri brot séu að eiga sér stað. „Fólk í dag treystir sér til að tala um hluti sem mátti ekki tala um fyrir nokkrum áratugum. Það er opnari umræða í samfélaginu og það skilar sér væntanlega í fleiri málum til okkar,“ segir Oddur.
Páley segir sömuleiðis að henni hafi fundist sem of fá kynferðisbrotamál hafi verið að koma inn á borð lögreglu síðustu ár. „Þessi aukning á sér vonandi þær skýringar að fólk sé að leita til lögreglu vegna þessara brota,“ segir Páley. Jákvætt sé að fólk leiti til lögreglu.
Einhver hluti þessarar aukningar eru brot sem fólk er fyrst núna að tilkynna, en áttu sér mögulega stað fyrir mörgum árum eða jafnvel áratugum síðan.
„Einhver sem er fullorðinn í dag getur verið að tilkynna brot gegn sér þegar hann var barn,“ segir Páley.
Hún segir ljóst að á litlu svæði eins og Vestmannaeyjum sé aukningin gríðarleg á milli ára og stórauki álagið, sérstaklega þar sem rannsóknardeildin sé bara einn maður. „Hér eru þung mál í vinnslu. Kynferðisbrotin taka tíma og eru þung,“ segir Páley.