Taldi sig starfa eftir núgildandi lögum

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir að koma þurfi á verklagsreglum …
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir að koma þurfi á verklagsreglum í ráðuneytinu þegar ráðherra ákveður að fara ekki eftir ákvörðun matsnefndar um hæfi umsækjenda. mbl.is/Eggert

„Að fá þennan dóm var mér áfall, að mínu mati gerði ég ekki annað síðastliðið sumar en að starfa eftir núgildandi lögum. Þau veita ráðherra heimild til þess að víkja frá þessu dómnefndaráliti.“ Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í desember að ráðherrann hefði brotið stjórnsýslulög með því að fara ekki eftir mati nefndarinnar um hæfi umsækjenda um stöðu dómara í Landsrétti. 

„Ég uni auðvitað þessum dómi alveg ágætlega,“ segir Sigríður. Hún hafi hins vegar verið ósammála því að hún hafi brotið lög með ákvörðun sinni.  

Sigríður segir að ágreiningurinn snúist um 10. grein stjórnsýslulaga, sem að kveður á um matskennt ákvæði að mati hennar.

„Ég taldi fleiri umsækjendur jafn hæfa þeim sem dómnefndin hafði komist að niðurstöðu um,“ segir Sigríður. Hún mat til dæmis umsækjanda meðal þeirra hæfustu sem dómnefndin hafði sett í 30. sæti. Sigríður segir að hún hafi tekið ríkara tillit til dómarareynslu en nefndin hafi gert.   

„Lögum samkvæmt bar mér, hvort sem ég myndi fara að niðurstöðu nefndarinnar eða ekki, að bera tillöguna undir Alþingi.“

Taldi tillögu nefndarinnar aldrei fá hljómgrunn á þingi

Sigríður segir að í því ljósi hafi hún kannað hug Alþingis varðandi mat nefndarinnar og taldi það ljóst að tillaga dómnefndarinnar myndi aldrei hljóta hljómgrunn á Alþingi, meðal annars vega jafnréttissjónarmiða.

Sigríður var spurð að því hvort það teldist ekki óheppilegt og slæmt að dómsmálaráðherra skuli vera ósammála Hæstarétti, æðsta dómsvaldi landsins, og skuli hafa brotið lög?

„Það er rétt að Hæstiréttur kemst að því að ég þurfi að rannsaka þetta ennþá frekar og þá þurfum við að skoða það og ég er búin að setja þá vinnu í gang með hvaða hætti ráðherra getur gert það, því lögin sjálf kveða á um það að ráðherra hafi bara tvær vikur til þess að skoða þessi mál, dómnefndin hafði haft nokkra mánuði til þess. Hæstiréttur fjallar ekkert um forsendur þessa lagaákvæði um tveggja vikna frestinn í lögununum, vegna þess að hann veitir að mínu mati ákveðna vísbendingu um þá vinnu sem ráðherra á að leggja í þetta.“

Sigríður segir það alltaf óheppilegt þegar það er komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hafi ekki farið að lögum. „Hins vegar verð ég að árétta það að þetta er matskennt ákvæði í lögum sem reynir oft á fyrir lögum.“  

Sigríður segir að koma þurfi á verklagsreglum í ráðuneytinu þegar ráðherra ákveður að fara ekki eftir ákvörðun matsnefndar um hæfi umsækjenda. „Þetta ætla ég að skoða og Alþingi þarf líka að skoða sinn þátt í þessu.“

Þá segir Sigríður að það komi til greina að endurskoða hvernig skipað er í nefndir sem meta hæfi umsækjenda um stöðu dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert