Gert var hlé á aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í lögbannsmáli Glitnis HoldCo. ehf. gegn fjölmiðlunum Stundinni og Reykjavík Media, eftir að lögmaður Glitnis óskaði úrskurðar dómara um það hvort vitni sem kölluð verða fyrir dóminn geti beitt fyrir sig 25. grein fjölmiðlalaga, sem snýr að vernd heimildarmanna.
Kröfunni var hafnað – og því verður vitnum ekki gert skylt að svara spurningum um þau gögn sem umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media byggði á.
Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, og Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, hafa báðir gefið skýrslu fyrir dómi. Í þeirri skýrslugjöf hafa þeir svarað öllum spurningum lögmanns Glitnis HoldCo. um eðli þeirra gagna innan úr Glitni sem umfjallanir miðlana byggðust á með þeim hætti að vísa til 25. greinar fjölmiðlalaga.
Er lögmaður stefnanda spurði Jón Trausta að því hvort heimildarmaðurinn hefði óskað nafnleyndar svaraði hann því ekki – og vísaði í 25. greinina. Það sama gerðu Jóhannes Kr. og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, og fyrsta vitnið sem kallað var til.
Lögmaður Glitnis leitaði úrskurðar dómara á þeim grundvelli að þar sem ekki fengist svar við því hvort heimildarmaðurinn hefði óskað nafnleyndar, væri ekki ljóst hvort hann hefði gert það. Samkvæmt 25. greininni verður heimildarmaðurinn að óska nafnleyndar til þess að fjölmiðlamönnum verði lagalega óheimilt að upplýsa hver hann sé.
Þessu mótmæltu lögmenn fjölmiðlanna og sögðu ljóst að þegar fjölmiðlamennirnir beittu fyrir sig 25. greininni ætti ekki að vera vafi um það að nafnleyndar hefði verið óskað.