Eitt þriggja markmiða í loftgæðamálum á Íslandi er að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum svifryks úr 80 á ári niður í færri en 5, fyrir árið 2029. Þetta kemur fram í fyrstu almennu áætlun um loftgæði fyrir Ísland sem gefin er út af umhverfis- og auðlindarráðherra.
Áætlunin ber heitið Hreint loft til framtíðar og er unnin af Umhverfisstofnun. Tvö af þremur markmiðum hennar tengjast svifryki. Ragnhildur G Finnbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnum, er ein þeirra sem vann að áætluninni.
Hún segir að undir hverju markmiði sé röð aðgerða. Kaup á nýju lofgæðaupplýsingakerfi sem hjálpar Umhverfisstofnun að streyma gögnum beint á netið sé liður í þessum aðgerðum. Nýja kerfið eigi að verða til þess að almenningur verði betur upplýstur um lofgæði í landinu. „Þetta er í innleiðingarfasa hjá okkur og við stefnum á að koma út nýrri heimasíðu á næstu örfáu mánuðum, vonandi.“
Markmið tvö snýst um að fækka fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsuverndarmörk úr 7-20 skipti á ári niður í 0. Meðal aðgerða til þess að ná því markmiði er að rykbinda göturnar oftar, hreinsa göturnar og fræðsluátak um lausagöngu bifreiða.
Rykbinda göturnar, hvað þýðir það?
„Þá er ákveðum saltpækli sprautað yfir göturnar, sem í rauninni heldur þá rakanum lengur í götunum, þannig að svifrykið helst frekar niðri,“ útskýrir Ragnhildur. Þegar kalt, stillt og þurrt er í veðri þá þyrlast göturykið upp af götunum er bílar keyra um. Rykið geti svo safnast upp og legið yfir borginni.
„Þegar heita loftið er fyrir ofan kalda loftið, þá verður ekki blöndun á loftinu lóðrétt, upp og niður. Þá heldur heita loftið kalda loftinu niður, bara svolítið svona eins og lok og þá í rauninni safnast það upp. Þegar bílar keyra þyrlast það upp og þá stoppar það bara í einhverri ákveðni hæð í staðinn fyrir halda áfram að dreifast upp þá fer þetta bara til hliðar.“
Í slíkum aðstæðum segir Ragnhildur rykbindingu geta minnkað svifryk svo um nemur. Framkvæmd hennar er í höndum sveitarfélaga og Vegagerðarinnar. „Það er í áætluninni að Vegagerðin og hlutaðeigandi sveitarfélög rykbindi oftar.“
Áætlunin um loftgæði skiptist í þrjá meginhluta. Í fyrsta hluta áætlunarinnar er sett fram markmið og aðgerðaáætlunin sjálf þar sem listaðar eru aðgerðir til að draga úr loftmengun á Íslandi. Í öðrum hluta áætlunarinnar er fjallað um helstu loftmengunarefni á Íslandi sem vöktuð eru ásamt uppsprettum þeirra, þróun loftmengunar síðustu árin, skuldbindingar Íslands, hlutverk stjórnvalda og áætlanir/aðgerðir sem, beint eða óbeint, stuðla að bættum loftgæðum í landinu.
Í þriðja hluta eru birtar samantektartöflur þar sem má sjá markmið áætlunarinnar, ábyrgðaraðila hverrar aðgerðar, kostnaðarmat og fjárhagsviðauka við áætlun um loftgæði. Áætlunin er í gildi næstu 12 ár og endurskoðuð á 4 ára fresti.