Taka Gaggó Vest loksins saman

Eiríkur Hauksson skýst til landsins um helgina.
Eiríkur Hauksson skýst til landsins um helgina.

Gunnar Þórðarson og Eiríkur Hauksson munu í fyrsta skipti flytja hið sívinsæla lag þess fyrrnefnda, Gaggó Vest, saman á sviði á Þrettándagleði Kringlukrárinnar í kvöld, laugardagskvöld. 

„Það er rétt, við höfum aldrei náð að flytja þetta lag saman á sviði,“ segir Gunnar Þórðarson. „Það er líklega kominn tími til. Þetta verður bara gaman.“ Þeir hafa áður staðið saman á sviði, meðal annars í Queen-sýningu á skemmtistaðnum Broadway um árið en eðli málsins samkvæmt var Gaggó Vest ekki á efnisskránni þar.

Aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða en Eiríkur flýgur til Noregs, þar sem hann hefur búið um langt árabil, strax á sunnudaginn. „Þetta verður ekki endurtekið, alla vega ekki í bráð,“ segir Gunnar. 

Tónleikarnir leggjast einnig vel í Eirík. „Þegar Gunni hélt upp á sjötugsafmæli sitt í Hörpu fyrir tveimur árum komst ég ekki til landsins vegna annarra skuldbindinga og þess vegna tók ég þessu tilboði feginshendi, þrátt fyrir nauman tíma. Ég er með verkefni hérna í Noregi á föstudagskvöldið [í gærkvöldi] og flýg því heim til Íslands á laugardaginn og aftur út á sunnudaginn.“

Hann hlakkar til að taka Gaggó Vest með höfundinum. „Það er alveg ótrúlegt að það hafi ekki gerst fyrr. Þetta verður virkilega gaman. Ég á Gunna mikið að þakka; segja má að ég hafi fundið fimmta gírinn eftir að ég söng þessi lög hans á Borgarbrag.“

Eiríkur hefur sungið Gaggó Vest annað veifið gegnum tíðina og þykir alltaf jafnvænt um lagið. „Gaggó Vest hefur alltaf fylgt mér. Ég hef sungið það með hinum og þessum og líka einn með gítarinn. Það er ekki auðvelt að flytja lagið þannig en ég læt mig hafa það fyrir Íslendinga á þorrablótum hérna í Noregi,“ segir hann hlæjandi.

Fleiri standardar verða á efnisskránni, ekki síst frá sjöunda áratugnum. Við erum að tala um Bítlana, Stones, Kinks og þess háttar. „Talað var um tíu lög en mig grunar að þau verði fleiri; úr því ég verð kominn á svæðið. Ég þekki prógramm Gullkistunnar ágætlega.“

Nánar er rætt við Gunnar og Eirík í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Gunnar Þórðarson, höfundur Gaggó Vest.
Gunnar Þórðarson, höfundur Gaggó Vest.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert