Íbúar í Vestmannaeyjum tóku forskot á þrettándann í gær þegar bæjarbúar fjölmenntu í skrúðgöngu með tröllum, Grýlu og Leppalúða ásamt jólasveinunum, sem komu ofan af Hánni. Gengið var upp Illugagötuna og þaðan inn á Malarvöll, en jólasveinarnir beygðu og heilsuðu upp á gamla fólkið á elliheimilinu.
Á Malarvellinum var kveikt í bálkesti og þar dönsuðu álfar við undirleik. Púkar og tröll ásamt þeim Grýlu og Leppalúða reyndu allt hvað þau gátu til að ná í óþæg börn en eitthvað gekk það erfiðlega þar sem lítið er af óþægum börnum í bænum.
Dagskráin endaði með flugeldasýningu og svo var kveikt á blysum en þá byrjaði að snjóa en annars hafði verið búið að vera gott veður og stillt, að sögn Óskars Péturs Friðrikssonar heimamanns, sem tók meðfylgjandi myndir.
ÍBV sér um að halda hátíðina og er öll helgin undirlögð. Gleðin heldur áfram í dag á löngum laugardegi og endar með hljómleikum með Grafík.
Þrettándagleði fer fram víðs vegar um landið í dag, þar á meðal á þremur stöðum í borginni. Í Vesturbænum verður gengið frá Melaskóla klukkan 18 með blys að brennu á Ægisíðu.
Í Grafarvogi verður árleg þrettándagleði Grafarvogsbúa haldin við Gufunesbæ og hefst hún klukkan 17.
Í Grafarholti verður safnast saman við Guðríðarkirkju um klukkan 18:30 og lagt af stað í blysför um stundarfjórðungi síðar með skólahljómsveit Grafarvogs í broddi fylkingar.