Fleiri hross flutt úr landi en áður

Færri folöld hafa fæðst á síðustu árum.
Færri folöld hafa fæðst á síðustu árum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fleiri hross voru flutt úr landi árið 2017 en árið áður. Útflutningur hrossa hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2010 þegar 1.158 hross fóru af landi brott. Í fyrra voru flutt út 1.485 hross til 17 landa flest fóru til Þýskalands eða 541, næstflest fóru til Svíþjóðar eða 261, 182 til Danmerkur og 127 til Sviss. Til annarra landa fóru færri en 100 hross. Fæst hross fóru til Ungverjalands og Ítalíu eða tveir hestar í hvort land.

Af þeim hrossum sem fóru úr landi höfðu 8,6% þeirra hlotið fyrstu verðlaun í kynbótadómi. Það hlutfall er svipað á síðustu þremur árum en fyrstu verðlauna hrossum hefur fjölgað milli ára, til samanburðar voru þau 4,4% árið 2010 af öllum hrossum sem fóru úr landi. Hryssur eru eftirsóknarverðastar enda geta þær átt folöld, þá geldingar og stóðhestar en tekið skal fram að samkvæmt þessum tölum liggur ekki fyrir skipting eftir aldri hrossanna.  

„Í heild eru flutt út meira tamin og betur ættuð hross en áður. Fólk kemur hingað til að kaupa eitthvað alveg sérstakt, vel tamda álitlega keppnishesta bæði unga og keppnisreynda. Mesta umbreytingin frá árum áður eru hross sem útlendingar eiga hér, hafa ræktað og taka út,“ segir Gunnar Arnarson, hrossaútflytjandi til áratuga. Hann telur að um 20-30% útfluttra hrossa falli í síðarnefnda hópinn. Í þeim hópi geta ýmist verið tamin og sýnd hross eða veturgömul trippi sem ræktendur flytja heim til sín, að sögn Gunnars.

Erlendir hrossaræktendur flytja hrossin sín heim

Gunnar segir litla sem enga breytingu á markaðnum sem slíkum sé litið til áfangastaða hrossanna. Þýskaland auk Norðurlandanna heldur áfram að vera stærst og fáir nýir markaðir að opnast þrátt fyrir að fleiri lönd hafi bæst í hópinn á síðustu árum.

Hjónin Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir hrossaútflytjendur.
Hjónin Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir hrossaútflytjendur. mbl.is/Styrmir Kári

Ákveðin deyfð hefur verið yfir Norðurlöndunum þar sem færri hross eru flutt þangað út en var til dæmis fyrir rúmum áratug. Skýringuna má til dæmis rekja til þess að hrosseigendur í þeim löndum og í Þýskalandi fóru að rækta sjálfir hross í ríkari mæl. Sú ræktunarbylgja virðist vera að ganga örlítið til baka því þar fæðast nú mun færri folöld en hafa gert á síðustu árum.

Ástæðan gæti verið sú að árangur ræktunarinnar hefur látið á sér standa, auk þess er ákaflega kostnaðarsamt að rækta, ala upp og temja hest. Þetta tilstand svarar líklega ekki kostnaði og það er hagkvæmara að kaupa hest frekar en rækta hann, að mati Gunnars. „Vonandi verður þetta til þess að þeir fara að koma hingað meira og kaupa. Það yrði besta staðan fyrir okkur,“ segir Gunnar. 

Helmingi færri fædd folöld 2016 en 2010

Þorvaldur Kristjánsson, hross­a­rækt­ar­ráðunaut­ur og ábyrgðarmaður hross­a­rækt­ar hjá Ráðgjaf­armiðstöð land­búnaðar­ins, tekur í sama streng og Gunnar og segir kostnaðinn líklega helstu skýringuna á færri fæddum folöldum. Þorvaldur bendir á að mun færri folöld hafi fæðst á síðustu árum í öllum löndum sem eiga aðild að FEIF, sem eru Alþjóðasamtök um íslenska hestinn, en árið 2010. Það ár fæddust til að mynda um 10 þúsund fölöld á Íslandi en árið 2016 voru þau um helmingi færri. Sömu sögu er að segja í öðrum löndum.  

„Það var mikil framleiðsla á heimsvísu. Fjöldi fæddra folalda var kominn langt fram yfir eftirspurn. Við erum enn með stóra árganga sem eru fæddir í kringum 2010,“ segir Þorvaldur. Það hefur líklega spilað inn í að fólk haldi síður merum ef það getur ekki selt eldri hesta en engin stýring eða kvóti er á því hversu mörg folöld hver og einn má rækta.

„Ég held að það séu bjartari tímar framundan, það þýðir ekki að vera svartsýnn. Maður heyrir að markaðurinn sé aðeins að taka við sér aftur,” segir Þorvaldur.   

Þorvaldur Kristjánsson hross­a­rækt­ar­ráðunaut­ur og ábyrgðarmaður hross­a­rækt­ar hjá Ráðgjaf­armiðstöð land­búnaðar­ins.
Þorvaldur Kristjánsson hross­a­rækt­ar­ráðunaut­ur og ábyrgðarmaður hross­a­rækt­ar hjá Ráðgjaf­armiðstöð land­búnaðar­ins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert