Veðrið í Norðlingaholti í Reykjavík er „kolbrjálað“ og foreldrar barna í Norðlingaskóla eru beðnir að halda þeim heima í dag, að minnsta kosti þar til versta veðrið gengur yfir. „Það er ekki stætt hér fyrir utan skólann,“ segir Jónína Rós Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri, sem var mætt snemma til vinnu í morgun.
Hún bendir á að skólinn sé opinn þannig að börn geti komið. Hins vegar sé verið að fara eftir tilmælum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og foreldrar hvattir til að halda börnum sínum heima. „Það er kolbrjálað veður hérna.“