Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður segir sögu samgöngumála í Reykjavík vera fulla af sögum af „ágætum en gamaldags körlum sem reiknuðu út að best væri að leggja fleiri hraðbrautir og setja minna fé í almenningssamgöngur.“
Hann nefnir fimm dæmi þar sem hugmyndir karlanna náðu hins vegar ekki fram að ganga, þökk sé almenningi sem náði að „stöðva vitleysuna“. Gísli Marteinn fjallar um hraðbrautirnar sem aldrei urðu á bloggsíðu sinni.
Tilefnið eru umræður vegna borgarlínu, nýs kerfis almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem umræður hafa sprottið um síðustu daga, meðal annars vegna útreikninga Frosta Sigurjónssonar rekstrarhagfræðings. Samkvæmt úttekt Frosta kostar borgarlínan hvert heimili á svæðinu 1-2 milljónir króna.
Frétt mbl.is: Kostar heimili 1-2 milljónir
„Enn á ný eru mættir í umræðuna menn sem telja augljóst að við þurfum að byggja meira fyrir bílana, en alls ekki setja peninginn í almenningssamgöngur,“ skrifar Gísli Marteinn. Hann er þeirrar skoðunar að andstaðan við borgarlínu sé fyrst og fremst menningarleg og hugmyndafræðileg og að hún snúist um ólíka framtíðarsýn á borgina.
Í fyrsta lagi nefnir hann útreikninga þar sem niðurstaðan var að þörf væri á fjögurra akreina hraðbraut niður Túngötu, fram hjá Alþingi og Hótel Borg, yfir Lækjargötu og upp Amtmannsstíg. „Vegna þessara áforma var Amtmannshúsið rifið — stórglæsilegt hús sem stóð efst á Amtmannsstíg, Dillonshús var flutt í burtu en það stóð neðst við Túngötu á horni Suðurgötu, en sem betur fer var ekki byrjað að rífa Hegningarhúsið þegar hætt var við alltsaman,“ skrifar Gísli Marteinn. Hann nefnir einni að aldrei hafi nein önnur hraðbraut komið í staðinn, útreikningarnir hafi einfaldlega verið rangir og aldrei var þörf á framkvæmdinni.
Í öðru lagi nefnir hann Fossvogsbrautina sem hefur reglulega skotið upp kollinum í samgöngumálum og fór inn í aðalskipulag borgarinnar. Gísli Marteinn segir að hugmyndinni um hraðbraut í Fossvogsdalnum hafi verið harðlega mótmælt frá upphafi. „En það var ekki fyrr en valdamiklir menn fluttu inn í stóru einbýlishúsin neðst í Fossvoginum að þeir sjálfir fóru að fá efasemdir um framkvæmdina.“
Í þriðja lagi fer hann yfir tillögu um hraðbraut í Laugardalnum. „Hraðbrautin átti að koma í beinu framhaldi af Dalbrautinni í norðri og sameinast Sunnuvegi við hinn endann. Þetta var talið nauðsynlegt til að bæta umferðarflæðið í borginni. Þetta var samþykkt og umferðarskipulag allt í kring ber þess merki að þarna átti að vera gata,“ skrifar Gísli Marteinn, og fagnar því að brautin hafi aldrei orðið að veruleika.
Í fjórða lagi fjallar hann um hraðbraut í sínu eigin hverfi, Breiðholtinu, fyrir neðan Vesturbergið, sem hann segir enga þörf vera á. „[...] í staðinn eiga Breiðhyltingar þarna frábært útivistarsvæði og það er einni hraðbrautinni færra í borginni.“
Í fimmta og síðasta lagi minnist Gísli Marteinn á hraðbrautina sem átti að fara þvert í gegnum Grjótaþorpið. Rífa hefði þurft stóran hluta svæðisins við framkvæmdina.
Líkt og fram kom hefur engin þessara hraðbrauta orðið að veruleika. „Og hvergi kom neitt í staðinn fyrir þær. Það var einfaldlega ekki þörf á þeim,“ skrifar Gísli Marteinn.
Að hans mati borgar það sig að skipuleggja borg með fjölbreytilegum samgöngum, göngu- og hjólastígum. Að ógleymdri „frábærri borgarlínu, þá verður hún hagkvæmari og þægilegri fyrir alla og allir verða fljótari í förum— líka þeir sem eru á bílum.“