Innviðir Vestfjarða jafnvel áratugum á eftir

Framkvæmdastjóri og starfandi formaður Landverndar afhentu í dag Þórdísi Kolbrúnu …
Framkvæmdastjóri og starfandi formaður Landverndar afhentu í dag Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrsta eintak skýrslunnar. mbl.is/Hanna

„Ég almennt fagna því að fá fram upplýsingar. Skýrslugerð og almenn upplýsingaöflun og -vinna og þegar sérfræðingar kafa ofan í mál hlýtur almennt að vera af hinu góða. Ég mun bara fara yfir þessa skýrslu og kynna mér efni hennar,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fyrir hádegi tók við skýrslu úr höndum fulltrúa Landverndar um leiðir til þess að styrkja raforkuflutningskerfið á Vestfjörðum og bæta raforkuöryggi í fjórðungnum.

Ráðherra segir í samtali við mbl.is að brýnt sé að tryggja samkeppnishæfni fjórðungsins með bættu raforkuöryggi og að innviðir ákveðinna svæða á Vestfjörðum séu jafnvel áratugum á eftir öðrum svæðum landsins hvað þróun innviða varðar.

Landvernd leitaði til kanadíska ráðgjafafyrirtækisins METSCO Energy Soluti­ons um vinnslu skýrslunnar, sem er á ensku. Á meðal niðurstaðna skýrsluhöfunda er það að tífalda megiraf­orku­ör­yggi á Vest­fjörðum með því að setja hluta Vest­ur­línu og fleiri lín­ur á sunn­an­verðum Vest­fjörðum í jörð. Hins veg­ar ger­i virkj­un Hvalár ekk­ert til að bæta raf­orku­ör­yggið þar.

Þórdís Kolbrún segir að tækniþróun í jarðstrengjalögnum sé hröð. „Kostnaðurinn er auðvitað töluvert mikið meiri, ég er ekki búin að lesa þetta en þau hjá Landvernd sögðu að það væri eitthvað komið inn á það, það verður áhugavert að sjá hversu mikið, því það er auðvitað einn þáttur í þessu.“

Hún segir að í ráðuneytinu sé verið að vinna að þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Það hafi verið sent til umsagnar í sumar og hafi nú borist til baka, með umsögnum, sem ráðuneytið muni vinna úr.

Í drögum að þingsályktuninni, sem finna má á vefsíðu stjórnarráðsins, eru sett fram markmið um heildarhlutfall jarðstrengja í landshluta- og meginflutningskerfi raforku á 11 kílóvolta spennustigi eða hærra fyrir árin 2020, 2025 og 2035. Markmiðið fyrir 2020 er þar 50% af lengd raflína, 65% árið 2025 og 80% árið 2035.

Ráðherrann segir að þessa dagana séu málefni fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar ekki á sínu borði. 

„Hún er auðvitað mikið í umræðunni en málið er áfram bara í ferli. Sveitarfélögin eru að vinna það og þá eru auðvitað eftir fleiri leyfi og annað slíkt, en það er ekkert sem snýr að þessu ráðuneyti hvað það varðar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún bætir því við að henni þyki sjálfsagt að fólk ræði um kosti og galla allra framkvæmda, en Hvalárvirkjun sé í nýtingarflokki rammáætlunar, öðrum áfanga, sem afgreiddur hefur verið af þinginu.

Tryggja þarf raforkuöryggi Vestfjarða

Almennt séð segir Þórdís Kolbrún að nauðsynlegt sé að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Það sé nauðsynlegt til að tryggja samkeppnishæfni fjórðungsins.

„Ég hef verið mjög skýr með það að það er ekki hægt að segja við landsvæði að við viljum jöfn tækifæri fyrir alla og að við viljum byggð úti um allt land þegar að innviðir, eins og raforkuöryggi, samgöngur og annað, eru jafnvel áratugum á eftir á ákveðnum svæðum,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert