„Allt er vont — Mér blæðir“

Í níu af 62 frásögnum kvenna í íþróttum er að …
Í níu af 62 frásögnum kvenna í íþróttum er að finna lýsingu á því hvernig konunum var nauðgað í tengslum við íþróttaiðkun sína. AFP

„Ég er að drep­ast úr verkj­um. Það er vont að sitja, það er vont að standa. Allt er vont. Mér blæðir.“ Svona lýs­ir kven­kyns leikmaður líðan sinni eft­ir að karl­kyns þjálf­ari henn­ar nauðgaði henni í íþrótta­húsi, að morgni leik­dags. „Hann nauðgar mér. Ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti.“

Frá­sögn­in er ein af þeim 62 sem kon­ur í íþrótt­um birtu í dag. Ásamt frá­sögn­um af kyn­bund­inni mis­mun­un, kyn­ferðis­legri áreitni og kyn­ferðis­legu of­beldi birtu þær yf­ir­lýs­ingu með und­ir­skrift­um 462 kvenna þar sem þess er kraf­ist að tekið sé föst­um tök­um á kyn­bundnu of­beldi og mis­rétti inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar.

Frétt mbl.is: Kon­ur krefjast breyt­inga í íþrótt­um

Níu nauðgan­ir er að finna í frá­sögn­un­um. Í þeirri sem lýst er hér að fram­an kem­ur meðal ann­ars fram hvernig kon­an ger­ir allt sem hún get­ur til að fela það sem gerst hafði fyr­ir liðsfé­lög­um sín­um. „Stelp­urn­ar eru mætt­ar inn í klefa og ég heyri í þeim spila tónlist og hlæja og peppa sig fyr­ir leik­inn og fund­inn.“

Þá lýs­ir hún því að hún sé reið við sjálfa sig vegna nauðgun­ar­inn­ar. „Ég er reið við sjálfa mig fyr­ir það að blæða því ég reyndi eins og ég gat að slaka á og berj­ast ekk­ert á móti þegar hann var að þessu. Ég reyndi bara að bíða eft­ir því að þetta tæki enda. Ég æli í kló­settið og skelf öll. Mér er rosa­lega kalt. Ég þarf að skipta yfir í keppn­is­bún­ing­inn en allt liðið mitt er inni í klefa og ég er með blóð á lær­un­um og stutt­bux­un­um.“

Hún lýs­ir því hvernig hún set­ur hettupeysu um mittið á sér og laum­ar sér inn á kló­sett þar sem hún þríf­ur blóðið og klæðir sig í keppn­is­föt­in. „Ég er svo fokk­ing óþolandi. Á ég að taka séns­inn á því að það muni hætta að blæða og að það muni ekki blæða í gegn­um stutt­bux­urn­ar mín­ar í leikn­um? Hvað ef það hætt­ir ekki að blæða? Hvað ef þetta verður lang­ur leik­ur? Ég get ekki verið öll í blóði. En ég get ekki sett túr­tappa í mig, ég er að drep­ast. Mig lang­ar ekki að fá neitt annað þangað inn held­ur. Ég æli aft­ur,“ seg­ir í frá­sögn­inni.

Þegar liðsfé­lag­ar henn­ar yf­ir­gefa klef­ann til að mæta á liðsfund hleyp­ur kon­an inn í klef­ann, set­ur í sig túr­tappa þrátt fyr­ir verk­ina og fer á fund­inn. „Ég var svo skömmuð af þjálf­ar­an­um fyr­ir að koma einni mín­útu of seint á fund­inn.“

Sekt­ar­sjóðir, klám og „ríðuleg­ar stutt­bux­ur“

Frá­sagn­irn­ar eru af ýms­um toga og koma gerend­urn­ir úr ólík­um átt­um. Meðal ann­ars má finna frá­sagn­ir þar sem þjálf­ar­ar, leik­menn, landsliðsmenn, starfs­menn íþrótta­fé­laga, stjórn­ar­menn íþrótta­fé­laga eða áhang­end­ur íþróttaliða brjóta gegn kon­um í íþrótt­um.  

Frá­sagn­irn­ar eru ým­ist stutt­ar eða lang­ar, en all­ar eru þær grafal­var­leg­ar. Í einni er minnst á svo­kallaðan sekt­ar­sjóð karlaliðs í hópíþrótt. „Fullt af hlut­um sem gefa sekt… dregið af sekt­inni fyr­ir að sofa hjá leik­manni kvennaliðsins!“

Í ann­arri frá­sögn seg­ir kona frá greiða sem leikmaður úr karlaliði íþrótt­ar­inn­ar sem þau stunda bað hana um að gera sér. „Þá bað hann mig um að næst þegar ég færi í sturtu með liðinu, að skoða eina stelp­una í liðinu nakta og segja hon­um svo hvernig hún rakaði sig. Hann út­skýrði fyr­ir mér að hann þyrfti að vita hvernig klám hann ætti að horfa á þegar hann hugsaði um hana.“

Klæðnaður einn­ar íþrótta­kon­unn­ar varð til þess að karl­maður sem stund­ar sömu íþrótt gerði bún­ing­inn að um­tals­efni þeirra á milli. „Bún­ing­ur­inn í minni íþrótt er íþróttatopp­ur og þröng­ar stutt­ar stutt­bux­ur. Þegar ég var að keppa til þess að kom­ast á Ólymp­íu­leik­ana í Ríó fékk ég reglu­lega að heyra það frá strák­um í sömu íþrótt að all­ar kon­ur í íþrótt­um ættu að spila í svona bún­ing­um. Það væri nefni­lega miklu skemmti­legra að horfa á kvenn­aíþrótt­irn­ar þegar stelp­urn­ar væru svona fá­klædd­ar. Síðan fékk ég líka margoft at­huga­semd­ir frá strák­un­um um út­litið mitt, t.d. „þú ert ekki með neina tussubumbu“ og „þess­ar stutt­bux­ur gera þig svo ríðulega“,“ seg­ir í frá­sögn­inni.

KSÍ, HSÍ og ÍSÍ bregðast við 

Nokk­ur sér­sam­bönd inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar hafa brugðist við yf­ir­lýs­ingu og frá­sögn­um kvenn­anna eft­ir að þær voru birt­ar í dag. Guðni Bergs­son, formaður KSÍ, sagði í sam­tali við mbl.is að sam­bandið verði að taka málið al­var­lega og gera allt sem í þess valdi standi til að koma í veg fyr­ir áreitni eða of­beldi í framtíðinni. „Það verður okk­ar afstaða,“ sagði Guðni. Von er á form­legri yf­ir­lýs­ingu frá KSÍ á næstu dög­um.

Frétt mbl.is: Knatt­spyrnu­hreyf­ing­in mun bregðast við

Guðmund­ur B. Ólafs­son, formaður HSÍ, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að hlut­verk HSÍ í þessu sam­hengi sé fyrst og fremst að skapa umræðu um kyn­bundið of­beldi og mis­rétti inn­an hand­knatt­leiks­hreyf­ing­ar­inn­ar. „Og hvernig eigi að nálg­ast þetta og hvernig þjálf­ar­ar eiga að nálg­ast hlut­ina.“

Frétt mbl.is: Fræðslu­starf inn­an HSÍ tekið til skoðunar

Þá sagði Lín­ey Rut Hall­dórs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Íþrótta- og ólymp­íu­sam­bands Íslands, í kvöld­frétt­um RÚV, að frá­sagn­ir kvenna í íþrótt­um væri eitt­hvað sem sam­bandið þyrfti að skoða. „Það er ekki hægt að verja þetta með nein­um hætti.“

All­ar frá­sagn­irn­ar 62 má lesa hér

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert