Meirihluti svarenda í umhverfiskönnun Gallup sem kynnt var í dag telur að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eða tveir af hverjum þremur. Þar af eru 26% mjög sammála þeirri skoðun en 40% frekar sammála. Einungis 13% eru því ósammála og þar af 4% mjög ósammála.
Meirihluti svarenda segist einnig hafa áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geti haft á þá og fjölskyldur þeirra eða 60% samanborið við 15% sem segjast ekki hafa slíkar áhyggjur. Konur hafa áberandi frekar áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga en karlar eða 68% á móti 52%. Mestar áhyggjur hefur aldurshópurinn 34-44 ára.
Hins vegar telja hliðstætt margir, erða 63%, að aukin áhersla á umhverfis- og náttúruvernd megi ekki bitna á þeim vatnsaflsvirkjunum sem starfræktar eru í dag. Sautján prósent eru ósammála þeirri afstöðu. Karlar eru frekar þeirrar skoðunar en konur eða 70% á móti 55%. Þeir sem eru á aldrinum 55 ára eldri og íbúar Suðurnesja eru meira sammála en aðrir.
Rúmlega helmingur svarenda telur Ísland fjárfesta of lítið í þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum eða 55% en 18% eru því ósammála. Nær sama hlutfall telur Ísland gera of lítið til þess að aðlagast loftslagsbreytingum eða 54% gegn 19%. Þá eru 46% ósammála því að Íslands sé brautryðjandi á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum en 17% því sammála.
Þrír af hverjum fjórum eru á því að nauðsynlegt sé að þróa og taka í notkun nýja orkugjafa ef skapa eigi sjálfbært samfélag á Íslandi en 9% eru því ósammála. Hliðstætt hlutfall, eða 74%, telur að til þess að skapa slíkt samfélag þurfi að rannsaka betur hvernig hægt sé að aðlagast loftlagsbreytingum. Átta prósent eru því hins vegar ósammála.
Skiptar skoðanir eru meira um það hvort skattleggja eigi jarðefnaeldsneyti mun hærra en endurnýjanlega orkugjafa. Þannig eru 42% sammála því en 37% ósammála. Könnunin var gerð dagana 8.-27. september 2017. Könnunin var netkönnun og úrtakið var 2006 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallups.