Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkur, segir að á næstu vikum verði birt mat á fýsileika þess að setja Miklubraut í stokk milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar. Sá kafli sé um 1,5 km.
Hugmyndir séu um að stokkurinn verði á einni hæð á um 8-10 metra dýpi með tveimur akreinum í báðar áttir. Rætt hafi verið um að ofanjarðar verði ein akrein í hvora átt fyrir almenna umferð og tvær akreinar fyrir almenningssamgöngur. Hæg umferð verði ofanjarðar, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi áform í Morgunblaðinu í dag.
„Það var samþykkt í borgarráði í fyrra að greina fýsileika þess að leggja Miklubraut í stokk að hluta með vísun í aðalskipulagið. Það má bera [stokkinn] saman við fýsileika Öskjuhlíðarganga.“