Undir niðri býr fjöldi fólks við ofbeldi

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta snýst um völd en hefur ekki með kynferði eða kynferðislegar langanir að gera. Þetta snýst um völd á vinnustöðum,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, á fundi Vinnueftirlitsins, stjórnar Vinnueftirlitsins og velferðarráðuneytisins sem fór fram á Grand hóteli í morgun.

Fundurinn var haldinn til að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstaka áherslu á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. 

Mikið var rætt um #meetoo-byltinguna en Þórunn vildi frekar kalla hana Við allar frekar en Ég líka (me too). „Við vitum öll að okkur ber ekki að áreita vinnufélaga okkar eða annað fólk,“ sagði hún.

Þórunn sagði að það þyrfti að breyta samskiptum og samfélaginu. „Við búum í samfélagi sem er friðsælt á yfirborðinu en undir niðri er fjöldi fólks sem býr við ofbeldi. Mörgum konum hefur aldrei verið trúað en nú er þetta að breytast.“

25% orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í starfi

Gallup gerði í nóvember könnun um kynferðislega áreitni á vinnumarkaði. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundinum en þar kom fram að 25% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi einhvern tímann á ævinni í starfi.

5,3% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðislegu áreiti á síðastliðnum 12 mánuðum. Birtingarmyndin er til að mynda ógnandi hegðun, óumbeðin og óþægileg snerting og að fá óumbeðið kynferðislegt efni sent til sín. 1.392 voru spurðir og var svarhlutfall 57,3%.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dugir ekki bara að tala

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fjölluðu bæði um #metoo-byltinguna. Katrín sagði Ísland framarlega á sviði jafnréttis en þrátt fyrir það þyrfti breytingar á þessu sviði.

„Það dugir ekki bara að tala. Afstaða ríkisstjórnar er að hvers konar áreitni og ofbeldi verður ekki liðið á vinnustaðnum okkar,“ sagði Katrín.

Gylfi sagði að allir ættu að geta stundað störf sín án þess að verða fyrir misnotkun af einhverju tagi og að verkalýðshreyfingin hafni hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Klárum þetta“

Hann sagði umræðuefni fundarins hafa verið á vettvangi stéttarfélaga árum og áratugum saman. Tók hann dæmi af fundi í fyrirtæki á Akureyri árið 1987 þar sem nánast allar konur fyrirtækisins sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

„Við skulum ekki hittast aftur að nokkrum árum liðnum og vera í sömu stöðu. Þetta er ósættanlegt. Klárum þetta.“

Í lok fundar var borin upp viljayfirlýsing og hún undirrituð af stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins, fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert