„Með þessu verður kynfræðsla mun markvissari í skólakerfinu en áður og gefst nemendum, allt frá 1. bekk og upp í 10. bekk, tækifæri til að byggja ofan á fyrri þekkingu sína.“
Þetta segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastjóri jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið en skóla- og frístundaráð hefur nú samþykkt að setja af stað tilraunaverkefni um kynfræðslu í tveimur grunnskólum á næsta skólaári.
Verkefnið byggist á tillögu starfshóps sem skilaði skýrslu sinni í ársbyrjun 2017. Hafa Seljaskóli, félagsmiðstöðin Hólmasel og Heilsugæslan í Mjódd þegar samþykkt að taka þátt í verkefninu, svo og Foldaskóli, félagsmiðstöðin Fjörgyn og Heilsugæsla Grafarvogs. Fræðslustarfið verður á sameiginlegri ábyrgð kennara, frístundaráðgjafa og skólahjúkrunarfræðinga.