Eitt af hverjum fjórum börnum á grunnskólaaldri hefur lent í áfalli sem getur haft áhrif á nám eða hegðun. Vanlíðan ungbarnaforeldra getur haft margvísleg og skaðleg áhrif á barnið alla ævi þess og átaks er þörf til að finna þau börn sem búa við heimilisofbeldi og grípa inn í sem fyrst. Að öðrum kosti geta þau þurft að glíma við afleiðingarnar alla ævi.
Þetta er meðal þess sem fram kom á árlegri ráðstefnu Barna- og unglingadeildar Landspítalans, BUGL, í gær og sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Yfirskrift ráðstefnunnar var Lengi býr að fyrstu gerð og meginviðfangsefnið voru þær aðstæður sem börn búa við fyrstu ár ævi sinnar.
Meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni var Sæunn Kjartans-dóttir, sálgreinir og sérfræðingur í meðferð fyrir ungbarnafjölskyldur hjá Miðstöð foreldra og barna. Hún fjallaði um falin áföll ómálga barna, svokölluð tengslaáföll.
„Hér er ekki um að ræða ofbeldi eða vanrækslu í hefðbundnum skilningi heldur þegar ungbörn fá ekki umönnun við hæfi vegna þess að foreldrum þeirra líður of illa. Þessi hópur hefur verið falinn í íslensku heilbrigðiskerfi,“ segir Sæunn. „Margir halda að svona ung börn gleymi því sem þau upplifa vegna þess að þau skilji ekki hvað sé að gerast. En ungbörn geta upplifað mikinn ótta og vanlíðan þegar þörfum þeirra er ekki sinnt og streitan sem af því hlýst getur haft langvarandi afleiðingar.“
Að sögn Sæunnar getur verið erfitt fyrir foreldra að viðurkenna að þeir þurfi aðstoð. „Myndin sem flestir draga upp af barnauppeldi á samfélagsmiðlum er slétt og felld. En það er ekki upplifun allra og það getur verið verulegt áfall fyrir sjálfsmyndina að höndla ekki foreldrahlutverkið hjálparlaust. Til dæmis hafa nokkrar mæður sem hafa leitað til mín sagt að þær hafi orðið að hætta á Facebook, þannig hafi þær losnað við þennan eilífa samanburð við allar hamingjusömu mömmurnar með fallegu börnin sín.“
Eitt áfall í lífi barns getur skert námsgetu, valdið óróa, svefntruflunum, reiði og skapsveiflum. Það getur líka leitt til þess að sá sem verður fyrir áfallinu dragi sig í hlé og þetta hefur allt áhrif á einbeitingu og minni.
Þetta sagði Reynir Harðarson, sálfræðingur hjá Barnavernd Reykjavíkur, í erindi sínu á ráðstefnu BUGL en þar fjallaði hann um áhrif heimilisofbeldis á börn. Hann sagði bandarískar rannsóknir sýna að 25% barna yrðu fyrir alvarlegum áföllum og engin ástæða væri til að ætla að staðan væri öðruvísi hér á landi. Reynir sagði að það að verða oft eða ítrekað fyrir erfiðri reynslu í æsku, yki líkurnar á ýmsum heilsufarsvanda, bæði andlegum og líkamlegum. „T.d. eru einstaklingar, sem hafa upplifað slíkt líklegri til að byrja snemma að lifa kynlífi og neyta vímuefna og þeir eru líklegri til að vera þunglyndir,“ segir Reynir. Þá geti börn, sem búa við heimilisofbeldi, glímt við ýmsan skapgerðar- og hegðunarvanda sem torveldi tengslamyndun við fullorðna og önnur börn.