Arfleifð gamaldags karlmennskukúltúrs

Viðar segir mikilvægt að innan íþróttafélaganna séu skýrir ferlar og …
Viðar segir mikilvægt að innan íþróttafélaganna séu skýrir ferlar og að þá þurfi að samræma á milli félaga. AFP

„Þetta sem er að koma upp á yfirborðið núna er skýr birtingarmynd af samfélagslegu meini sem er einkum arfleifð af gamaldags karlmennskukúltúr sem magnast upp í ákveðnum aðstæðum,“ segir Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem einkum hefur sérhæft sig í félagsfræði íþrótta.

Viðar segir mikilvægt fyrir íþróttahreyfinguna að þetta sé komið upp á yfirborðið, og að mikið hugrekki hafi þurft til. Hann segir íþróttir sérstaklega viðkvæmar þegar kemur að kynferðislegri áreitni og því sé vandamálið eflaust stærra þar en á öðrum sviðum, einkum af þremur ástæðum.

„Í fyrsta lagi er mikið valdaójafnvægi á milli þjálfara og iðkenda íþrótta,“ segir hann, og að á svipuðum nótum sé mikið ójafnvægi á milli fyrirmynda í íþróttum og yngri kynslóðanna.

Viðar Halldórsson, félagsfræðingur við Háskóla Íslands.
Viðar Halldórsson, félagsfræðingur við Háskóla Íslands.

Íþróttir fyrst og fremst verið fyrir karla og stjórnað af körlum

Þá segir hann íþróttir vera líkamlegt athæfi og að í þriðja lagi hafi karlmennskukúltúr verið þar ríkjandi alla tíð. „Í sögulegu ljósi hafa íþróttir fyrst og fremst verið fyrir karla, þeim hefur verið stjórnað af körlum og ákveðin karlmennskugildi verið höfð í fyrirrúmi.“ Það geri það t.d. einnig að verkum að oft sé samkynhneigð karlmanna mikið tabú innan íþrótta.

Landsmönnum hefur misboðið þær grófu sögur af ofbeldi sem íþróttakonur hafa varpað fram undanfarna daga, en Viðari segir sér hafa verið brugðið við lestur sumra þeirra þótt hann þekki íþróttahreyfinguna vel og vissi t.d. hvernig talað væri um konur oft og tíðum.

Þó segir hann ýmislegt á réttri leið innan íþróttahreyfingarinnar. „Við sjáum til dæmis að framkvæmdastjórar þessara stóru íþróttasamtaka eins og ÍSÍ, UMFÍ og KSÍ eru konur og þetta hefur allt gerst á undanförnum árum. Fyrir fimmtán til tuttugu árum síðan þekktist varla að konur væru í stjórnum íþróttafélaga.“

„Íþróttafélögin hafa verið að gera góða hluti hvað þetta varðar en það er mjög mikilvægt að þetta komi upp vegna þess að þarna er pottur brotinn. Það er ófrávíkjanleg krafa að íþróttahreyfingar geri betur, breyti þessum kúltúr og taki þetta alla leið.“

Hlutirnir verði aldrei samir

Viðar segir mikilvægt að innan íþróttafélaganna séu skýrir ferlar og að þá þurfi að samræma á milli félaga. „Iðkendur og foreldrar þurfa að vera vissir um það að leiðirnar til að tilkynna séu stuttar, augljóst sé við hvern eigi að tala, að fullum trúnaði sé heitið og og að tekið sé á slíkum málum með ábyrgð og festu.“

Hann segist halda að hlutirnir verði aldrei samir, sem betur fer, af því að um byltingu sé að ræða.

„Með nýjum áherslum íþróttahreyfinganna og þessari þróun þá held ég að við getum spornað allverulega við þessu. Samræmdir verkferlar fyrir öll félög og að konur taki virkari þátt í stjórnunarstörfum hjálpar allt við það að má út þessar leifar af þessum karlmennskukúltúr sem við viljum vera laus við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert