„Við gáfum út viðvörun á fimmtudaginn og áttum von á einhverjum hreyfingum en bjuggumst ekki við skriðum alveg í grennd við bæi,“ segir Jón Kristinn Helgason hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, en mbl.is greindi frá því að í gær hefði orðið skriða og flóð við bæinn Hafranes sem hreif með sér 20 heyrúllur og eyðilagði heimreiðina.
Þá greindi RÚV frá því að á bænum Innri-Kleif í Breiðdal hefði aurskriða fallið í bæjarlækinn með þeim afleiðingum að hann breytti um farveg og eyðilagði brunna og vatnsveitu.
Jón Kristinn segir Veðurstofuna vita af fleiri ofanföllum sem hafi þó verið minni og ekki valdið tjóni. Þá berist slíkar tilkynningar oft ekki fyrr en einhverjum dögum seinna.
„Þegar svona miklar vetraraðstæður eru og hiti, hláka og úrkoma kemur ofan í það má búast við að það verði einhverjar hreyfingar. Við þessar aðstæður skapast krapaflóð og aurskriður.“
Næstu daga segir hann veðurspána gera ráð fyrir að kólni og því sé ekki endilega von á fleiri skriðuföllum. Þá verði vont veður á stórum hluta landsins næstu daga áður en snúist í hreinar norðanáttir.