Fyrstu fréttir herma að næturvagnar Strætó hafi verið vel nýttir í nótt og ferðir hafi gengið áfallalaust fyrir sig. Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó. „Mér skilst að þetta hafi bara gengið vel og alveg slatti af fólki nýtt sér þetta, mikið af ungu fólki.“
Næturvagnarnir fóru sínar fyrstu ferðir í nótt þar sem sex leiðir voru í boði úr miðbænum í flest hverfi höfuðborgarsvæðisins. Leiðirnar sem um ræðir eru leiðir 101, 102, 103, 105, 106 og 111. Næturvagnarnir sinna akstri aðfaranætur laugar- og sunnudaga.
Stakt fargjald með næturvögnum er 920 krónur eða tveir strætómiðar. Handhafar strætókorta geta hins vegar notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar.