Ísland er dýrasti áfangastaður í Evrópu samkvæmt samanburði þýsku ferðaskrifstofunnar TUI, sem er sú stærsta í heimi. Ísland er rúmlega tvöfalt dýrara en Spánn, 20% dýrara en Danmörk og 11% dýrara en Noregur.
Þýski fréttamiðillinn Die Welt fjallar um samanburðinn þar sem því er velt upp hvar í Evrópu Þjóðverjar fái mest fyrir peninginn á ferðalögum með því að skoða verð á hótelum og veitingastöðum. Þá kemur í ljós að í samanburði við Þýskaland er Ísland 62,5% dýrara. Noregur er 45,9% dýrari og Danmörk 35,5% dýrari. Ódýrust er svo Búlgaría en hún er 59,8% ódýrari en Þýskaland.