„Þetta er einfaldlega það besta sem hefur komið fyrir mig á lífsleiðinni,“ segir Helena Jónsdóttir sálfræðingur sem hefur undanfarin þrjú ár starfað fyrir alþjóðlegu samtökin Læknar án landamæra, Médecins Sans Frontières (MSF).
Samtökin munu kynna starfsemi sína á Læknadögum í Hörpunni í vikunni og á Landspítalanum 22.-26. janúar, auk þess sem sérstakir kynningarfundir verða haldnir 17. og 24. janúar á Kex hostel þar sem starfsemin verður kynnt fyrir Íslendingum sem hafa hug á að starfa fyrir MSF.
Þetta er í fyrsta skipti sem MSF kynnir starfsemi sína á Íslandi en nokkrir Íslendingar hafa starfað fyrir samtökin í gegnum tíðina. Fólk með fjölbreyttan bakgrunn er hvatt til þess að sækja um enda ekki bara læknar eða hjúkrunarfræðingar sem starfa á vettvangi heldur fólk úr ólíkum áttum, að sögn Helenu.
Hún segir að auk heilbrigðisstarfsfólks sé verið að leita eftir tæknimenntuðu fólki, svo sem verkfræðingum og arkitektum, iðnaðarmönnum, verkefnastjórum, blaðamönnum, upplýsingafulltrúum, viðskiptafræðingum, lögfræðingum og svo mætti lengi telja. Því verkefnin sem þarf að sinna eru mörg.
Á síðasta ári sinnti MSF um 450 verkefnum í 69 löndum og verkefnin geta verið af ólíkum toga. Þrátt fyrir að Læknar án landamæra hafi ekki áður kynnt starfsemi sína hér á landi þá hafa landsmenn verið duglegir að styrkja samtökin og þá aðallega í gegnum aðalskrifstofu þeirra í Brussel, að sögn Helenu.
„Íslenskt starfsfólk MSF, líkt og starfssystkini þeirra annars staðar af Norðurlöndunum, hefur vakið athygli fyrir vel unnin störf. Því hafa samtökin áhuga á að fá fleiri Íslendinga til starfa og um leið að bjóða Íslendingum sem vilja styðja við bakið á starfseminni kost á því að gera það á auðveldari máta og beint í gegnum skrifstofu MSF í Noregi,“ segir Helena.
95% af fjárframlögum Lækna án landamæra koma frá einkaaðilum og samtökin taka ekki við fjárframlögum frá stjórnvöldum í þeim ríkjum þar sem samstökin starfa, stjórnmálasamtökum og alþjóðastofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum.
„Við tökum aldrei við skilyrtum fjárframlögum, til að mynda þegar gefandinn setur skilyrði fyrir því hverjum eigi að hjálpa. Þetta gerir það að verkum að við getum tjáð okkur og staðið við einkunnarorð Lækna án landamæra: Óhlutdrægni, sjálfstæði og hlutleysi. Við undanskiljum engan og skiptir kynþáttur, kynferði, trú eða stjórnmálaskoðanir þar engu. Þannig getum við beint neyðaraðstoð okkar þangað sem þörfin er mest.
Hlutleysið þýðir að við tökum ekki afstöðu í pólitískum, efnahagslegum eða trúarlegum deilum. Hvort heldur sem um er að ræða stjórnvöld eða stjórnarandstæðinga í því ríki sem við störfum í. Hvað varðar sjálfstæðið þá látum við ekki ríkjandi öfl, hvort sem það er á pólitíska sviðinu, trúar- eða efnahagsleg sjónarmið, stjórna því hvar við störfum. En að sjálfsögðu þurfum við oft að reiða okkur á aðra. Til að mynda í löndum þar sem ólíkir hópar takast á,“ segir Helena og bendir á starfsemi Lækna án landamæra í Afganistan því til stuðnings þar sem talibanar eru áhrifamiklir.
Í byrjun árs 2016 ákváðu Læknar án landamæra að afþakka styrki frá Evrópusambandinu vegna samnings sambandsins við Tyrki um að stöðva för flóttafólks sem reynir að komast til Evrópu. Ekki nóg með það heldur þiggja samtökin ekki opinbera styrki frá ríkjum ESB vegna málsins.
„Stærð okkar og sjálfstæði og áhrifamáttur gerir okkur kleift að taka svona ákvarðanir þrátt fyrir að þær taki á í rekstri samtakanna,“ segir Helena.
Helena segir að MSF hafi einfaldlega þurft að hætta starfsemi á ákveðnum stöðum líkt og gerðist í Kunduz í Afganistan um svipað leyti og hún starfaði þar. Svipað hefur gerst í Sómalíu þar sem glæpahópar hafa leikið samtökin grátt. Spurð um Suður-Súdan þá segir hún að þau hafi aldrei þurft að loka neinni starfsstöð en litlu hafi mátt muna. Gríðarleg fátækt ríkir þar og rán á hjálparstarfsmönnum arðbær atvinnugrein.
Fyrsta verkefnið sem Helena fór í fyrir MSF var við sjúkrahús Lækna án landamæra í Kunduz en þaðan fór hún til Kaíró í Egyptalandi, svo Suður-Súdan, Beirút í Líbanon og síðasta verkefnið hennar var í Suður-Súdan. Hún er núna í níu mánaða leyfi frá störfum til þess að stýra undirbúningi að stofnum lýðháskóla á Flateyri sem áætlað er að taki til starfa í haust.
Helena er framkvæmdastjóri skólans og er það hennar verkefni að sækja fjármagn og stuðning, vekja áhuga á þessari tegund námsleiða og koma þessum skóla á fót í haust með öllu sem til þarf, húsnæði, nánari námskrá, kennurum og síðast en ekki síst, nemendum,“ sagði Helena í samtali við Morgunblaðið í liðinni viku. Hún gerir ráð fyrir að fyrsta kastið verði nemendur lýðháskólans um 15-20 talsins. Ein af ástæðunum fyrir því að Helena ákvað að taka verkefnið að sér er ást hennar á Flateyri og Vestfjörðum almennt. Það hefur lengi verið draumur minn að búa á Flateyri og fá að koma að uppbyggingu á atvinnu eða öðrum möguleikum þar. Sá draumur rætist nú svo um munar.
Starfið hjá Læknum án landamæra hefur tekið á en um leið segir Helena að þetta sé það frábærasta sem hún hafi gert í lífinu.
„Ég var búin að ganga með hugmyndina í maganum í mörg ár og í tvö ár hafði ég verið með umsóknina tilbúna. En það var aldrei rétti tíminn. Ég var að stofna mína eigin sálfræðistofu sem bæði gekk vel og var skemmtilegt verkefni. Eins vildi ég safna meiri reynslu sem sálfræðingur áður en ég færi út og svona gekk þetta. Einn daginn þegar ég var á leiðinni í vinnuna eftir dásamlegt ferðalag um Ísland með vinkonu minni hugsaði ég með sjálfri mér; er þetta það sem ég ætla að gera það eftir er starfsævinnar?“ segir Helena sem sendi umsóknina til Lækna án landamæra síðar um daginn. Innan við hálfu ári síðar var hún komin til Afganistan.
Að hennar sögn er þetta saga mjög margra sem starfa eða hafa starfað fyrir samtökin. Yfirleitt eitthvað sem fólk hefur gengið með í maganum í einhvern tíma áður en umsóknin er send. Því miklu skipti að tíminn sé réttur.
„Þú verður ekki ríkur af því að vinna fyrir MSF,“ segir Helena en starfsfólk fær greidda dagpeninga, það er þú færð greidda peninga sem eiga að duga fyrir daglegu lífi á viðkomandi stað, auk þess sem samtökin standa straum af kostnaði við húsnæði og ferðir þínar til og frá verkefnum. Launin eru miklu frekar táknræn heldur en eitthvað annað því litið er á starfið sem sjálfboðaliðastarf að ákveðnu leyti. Starfsmenn eru ekki æviráðnir og þeir fá greitt fyrir þau verkefni sem þeir taka þátt í en eru iðulega ekki á launum á milli verkefna.
Þrátt fyrir að launin séu ekki há er lögð mikil áhersla á þjálfun starfsfólks, svo sem með námskeiðum og leiðtogaþjálfun. Helena stefnir að því að fara aftur út á vegum MSF í haust eða síðar og þá í þjálfun á vegum samtakanna.
Helena segir að eitt af því skemmtilega en um leið erfiða við starfið sé að kynnast og starfa með fólki úr ólíkum áttum.
„Þú tekst á við ólík verkefni með alls konar fólki sem er mjög skemmtilegt og gefandi. Á sama tíma ertu að vinna með fólki sem skipuleggur sig mjög ólíkt því sem við Norðurlandabúar eigum að venjast. Ég kynnist þessu af eigin raun og þá sérstaklega í Egyptalandi þar sem klukkutími getur breyst í sólarhringa. Það tekur á ég viðurkenni það,“ segir Helena og bætir við að þetta sé ekki endilega verr unnið heldur bara á öðru tempói en við erum vön.
Hún segir að svo komi kannski í ljós eftir að þú ert búinn að pirra þig mikið á agaleysi annarra að leið viðkomandi er bara betri en sú sem þú taldir þá einu réttu.
„Þú lærir að taka tillit til annarra og vinna með öðrum sem er mannræktin í þessu öllu saman en um leið mesti streituvaldurinn,“ bætir hún við. Þetta er ein ástæðan fyrir því að fólk er flutt frekar hratt á milli staða á vegum Lækna án landamæra en yfirleitt er fólk ekki lengur en sex til tólf mánuði á hverjum stað.
Spurð út í hvaða verkefni hafi reynst erfiðust á þessum þremur árum segir Helena erfitt að svara þeirri spurningu beint út því öll verkefnin hafi verið erfið. Hvert á sinn máta. Afganistan hafi til að mynda verið erfitt því það var hennar fyrsta verkefni.
„Það var líka erfitt fyrir þær sakir að þar varð ég vitni að mikilli eymd og horfði upp á illa slasað fólk líkamlega sem og illa farið andlega. Um leið ótrúlega gefandi því þetta er sennilega eitt sterkasta fólk sem ég hef kynnst. Fólk í Afganistan hefur þurft að horfa upp á hluti eins og barnadauða í fjölskyldum sem hluta af daglegu lífi alla tíð. Afganska þjóðin sýnir ótrúlegt æðruleysi gagnvart hlutum sem gætu bugað hvern sem er,“ segir Helena sem dvaldi níu mánuði í Kunduz-borg.
Allan þann tíma steig hún aldrei út á götu borgarinnar því starfsmenn MSF voru á lokuðu svæði til þess að tryggja öryggi þeirra. Það dugði þó ekki til því árás var gerð á sjúkrahús MSF í borginni aðeins nokkrum dögum eftir að Helena fór þaðan.
„Kaíró var sennilega erfiðust. Því þar er gríðarlegur fjöldi flóttamanna fastur. Flóttamanna frá löndum sunnan Sahara, svo sem Sómalíu, Eþíópíu, Erítreu, Súdan og Suður-Súdan. Engar flóttamannabúðir eru skilgreindar sem slíkar í Kaíró. Staðreyndin er sú að Kaíró er einar stórar flóttamannabúðir. Fólk kemur sér bara fyrir og auðvitað skapast ákveðin samfélög. Til að mynda eru Sýrlendingar fjölmennir í hverfi sem heitir Sixth of October. Þarna hjálpar fólk hvert öðru en Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna ber ábyrgðina,“ segir Helena.
„Þú ert réttlaus í Kaíró ef þú ert ekki skráður flóttamaður hjá Flóttamannastofnun SÞ. Ef þú ert skráður þá færðu þjónustu sem slíkur ogn margir þeirra bíða þess að komast til þriðja landsins sem kvótaflóttamenn. Þarna starfrækir MSF læknastofu þar sem flóttamönnum, sem hafa orðið fyrir ofbeldi og pyntingum sem afleiðingum af stríði og átökum og öðrum slíkum áföllum, er veitt aðstoð.
Ég hef aldrei heyrt álíka sögur og vil ekki endurtaka þær því ég vil ekki að fólk þurfi að heyra þær. En ég þurfti að leita mér sálfræðiaðstoðar eftir verkefnið í Kaíró,“ segir Helena sem segist hafa misst tímabundið trúna á mannkynið og að hún hafi ekki getað ímyndað sér að heimurinn gæti orðið góður staður til að búa í að nýju.
Helena segir að aðstæður í Suður-Súdan séu mjög erfiðar en þar er verið að vinna með fólki á vegum MSF sem er nánast algjörlega ómenntað og hefur aldrei séð tölvur hvað þá annað.
„Klárt og duglegt fólk sem ekki hefur notið þeirra forréttinda að mennta sig og hafa aðgang að tækjum og tólum sem við teljum sjálfsögð. Þarna bjuggum við í moldarkofum mánuðum saman enda ekkert húsnæði í boði,“ segir Helena.
Beirút í Líbanon er sá staður sem hún var lengst á eða í tíu og hálfan mánuð. Að sögn Helenu hefur Beirút upp á óendanlega möguleika að bjóða og miklu fleiri möguleika en Reykjavík. „Nema í miðri borginni eru flóttamannabúðir þar sem ástandið er ólýsanlegt,“ segir hún.
Hún bendir á að Líbanon er níu sinnum minna en Ísland og þar bjuggu fyrir um 3,5-4 milljónir áður en stríðið í Sýrlandi braust út. Þar eru núna skráðir 1,2-1,4 milljónir flóttamanna en auk þess eru fleiri hundruð þúsund flóttamenn óskráðir. Kannski 500-800 þúsund manns. Þannig að fjöldinn slagar hátt í tvær milljónir sem hafa bæst í hóp þeirra sem búa í Líbanon.
Innviðir Líbanons í dag taka mjög mið af þessum aðstæðum þar sem húsnæðisskortur og atvinnuleysi eru mjög áberandi. Verðbólgan hefur rokið upp úr öllu valdi og oft erfitt um vik að útvega mat. Vandamálið sem líbanska þjóðin stendur frammi fyrir í dag er að hjálparstofnanir og alþjóðasamfélagið eru farin að beina fjármagninu, sem áður rann til Líbanon, til Sýrlands.
„Þar er byrjað að byggja upp að nýju sem er mjög eðlilegt en um leið er alþjóðasamfélagið með þessu að hætta stuðningi við Líbanon sem hefur ekkert bolmagn til þess að fjármagna sjálft neyðaraðstoð til flóttafólksins og á í raun alls ekki að þurfa að bera þá ábyrgð. Flóttafólkið er hins vegar ekkert að fara aftur heim til Sýrlands fyrr en uppbygging er komin lengra á leið og óhætt er fyrir það að snúa aftur. Margir þeirra sem flúðu Sýrland eru stjórnarandstæðingar og ekki líklegt að þeir vilji eða geti snúið aftur í óbreytt ástand. Eins koma þeir frá stöðum sem voru eyðilagðir í stríðinu,“ segir Helena.
Hún bendir á að nánast allir flóttamenn heimsins vilji snúa aftur til heimalandsins enda er fólk ekki á flótta að eigin ósk heldur vegna þess að það er neytt til þess að flýja heimili sín. „En þegar ekkert er eftir – þú hefur að engu að hverfa og stjórnvöld þér andsnúinn. Þá veltir þú því eðlilega fyrir þér hvort þú eigir að fara til baka,“ segir Helena.
Eitt af því sem samtökin Læknar án landamæra ætla að gera á Læknadögum í Hörpu í vikunni og á Landspítalanum í vikunni þar á eftir, er að setja upp eftirlíkingu af spítala, þar sem líkt er eftir þeim aðstæðum sem starfsmenn MSF vinna við á vettvangi. Hvort heldur sem það er á stríðshrjáðum svæðum eða svæðum sem hafa orðið fyrir náttúruhamförum. Með þessu er ætlunin að kynna fyrir fólki starfsemi samtakanna og þær aðstæður sem unnið er við á venjulegum degi, en þær geta oft verið ansi frumstæðar og langt frá því sem við eigum að venjast í okkar heimalöndum, segir Helena.
Yfirmaður MSF í Noregi, Karine Nordstrand, mun vera meðal þeirra sem koma að kynningunni í Hörpu 15. til 19. janúar og mun hún halda fyrirlestur um samtökin á fyrsta ráðstefnudegi Læknadaga.
Samtökin reka skrifstofur í 28 löndum og er starfseminni skipt upp fimm rekstrareiningar. Höfuðstöðvarnar eru í Brussel en hinar einingarnar eru í Genf, Barcelona, Amsterdam og París.
Samtökin voru stofnuð árið 1971 í Frakklandi af þrettán manna hópi lækna og blaðamanna. Ástæðan fyrir stofnun samtakanna var ástandið í Bíafra þar sem stríð geisaði og hungursneyð. Taldi hópurinn afmarkað starfssvið alþjóðlegra stofnana á borð við Rauða krossinn standa hjálparstarfi og mannréttindabaráttu fyrir þrifum.
Yfirlýst markmið Médecins Sans Frontières hefur verið allt frá upphafi að veita neyðaraðstoð fljótt á skilvirkan og um leið á óhlutdrægan hátt. Stofnendurnir vildu sjá samtök verða að veruleika sem starfaði sjálfstætt án opinberra afskipta. Um þrjú hundruð sjálfboðaliðar tóku strax til starfa, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar og aðrir starfsmenn auk þeirra 13 lækna og blaðamanna sem áttu frumkvæðið að samtökunum. Fyrsta verkefni MSF á vettvangi var í höfuðborg Níkaragva, Managua, árið 1972 eftir að stór hluti borgarinnar jafnaðist við jörðu í jarðskjálfta. Á milli 10-30 þúsund manns fórust í jarðskjálftanum.
Fyrsta risastóra flóttamannaverkefnið sem MSF kom að var að sinna íbúum Kambódíu sem flúðu harðstjórn Pol Pot árið 1975. Samkvæmt upplýsingum frá MSF kom fljótt í ljós á þessum árum hversu vanmáttug samtökin voru, undirbúningur fyrir verkefni var af skornum skammti og læknar sendir á vettvang án þess að njóta nægs stuðnings frá samtökunum.
Í kjölfarið fóru samtökin í gegnum mikla naflaskoðun sem endaði með því að stofnendur þeirra fóru í tvær áttir: Médecins du Monde sem Bernar Kouchner, einn af stofnfélögum, setti á laggirnar. Kouchner var síðar utanríkisráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands.
Alls starfa um 35 þúsund manns hjá MSF og frá stofnun hafa þau sinnt yfir eitt hundrað milljón skjólstæðingum. Alþjóðlegu mannúðarsamtökin Læknar án landamæra skilgreina sig sem sjálfstæð, alþjóðleg mannúðarsamtök, án hagnaðarsjónarmiða, sem hafa það að markmiði að veita hrjáðu fólki læknisaðstoð. Þau fengu friðarverðlaun Nóbels fyrir starfsemi sína árið 1999.