Greint var frá því á föstudaginn síðasta að líklega hefði verið mannaskítur í undirgöngum á göngustíg undir Strandveg, á milli Borga- og Víkurhverfis í Grafarvogi. Í morgun var einnig skítur í göngunum en mbl.is hafði samband við hverfastöð Reykjavíkurborgar í Jafnaseli sem sér um Grafarvoginn sem þreif upp skítinn í morgun.
Líklega er þetta ekki sami skíturinn og var þar fyrir helgi því á föstudaginn var Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur greint frá skítnum og klósettpappírnum í kring. Þau svör fengust að það hygðist þrífa upp kúkinn.
„Það er erfitt að sjá hvort þetta er mannaskítur eða eftir hund því sumir hundar skilja eftir stór stykki,“ segir Ísak Möller, rekstrarstjóri hverfastöðvar Reykjavíkurborgar í Jafnaseli. Í göngunum er snjór öðrumegin en hinumegin voru tvær stórar skítaklessur og sú þriðja var örlítið minni.
„Ég á erfitt með að ímynda mér að þarna fari maður út í skjóli myrkurs og geri þarfir sínar,“ segir Ísak sem tekur fram að hann geti heldur ekki útilokað neitt í þessum efnum. „Við fylgjumst betur með þessu ástandi þegar maður á von á þessu,“ segir Ísak.
Ísak hvetur íbúa til að tilkynna Reykjavíkurborg ef grunur leikur á um sambærileg tilvik. Hægt er að hafa samband í aðalsímanúmerið 411-1111, senda tölvupóst og senda ábendingu ýmist undir nafni eða nafnlaust.
Þess má geta að vegfarandi sem greindi frá mannaskítnum fyrir helgi segist hafa séð skít reglulega á þessu svæði síðustu mánuði.